Handbolti

Ísak: Búnir að pissa á staurana okkar

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ísak á ferðinni í kvöld.
Ísak á ferðinni í kvöld. vísir/daníel
„Svona eiga allir leikir að vera, spennandi alveg fram í lokin og báðar stúkurnar á fullu. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum að æfa allan veturinn, til að spila þessa leiki og það er gaman þegar þetta endar okkar megin,“ sagði FH-ingurinn Ísak Rafnsson eftir sigur FH á Haukum í Krikanum í kvöld.

„Við áttum ekki að fá að vinna þennan leik, mér fannst dómgæslan á móti okkur ef ég á að segja eins og er. Við vorum sex sinnum útaf í fyrri hálfleik og nokkrum sinnum í seinni hálfleik en við létum það aldrei á okkur fá.

„Þetta var ekki alltaf vitlaust en þær voru margar ódýrar,“ sagði Ísak um brottrekstrana.

„Við héldum alltaf áfram og svo ég vitni í Elvar Erlingsson (aðstoðarþjálfara FH) þá erum við svo sannarlega búnir að pissa á staurana okkar núna.“

FH er 2-0 yfir í einvíginu og þarf aðeins einn sigur í viðbót til að slá deildarmeistarana út.

„Það er þægilegt að hafa þetta í okkar höndum en við megum ekki missa okkur í gleðinni. Haukar eru ennþá inni í þessu, þeir þurfa bara einn sigur og þá er þetta aftur orðið einvígi.

„Við þurfum að mæta fullir sjálfstraust á Ásvelli á sunnudaginn og ekki gefa tommu eftir. Það verður erfiður leikur en við förum klárlega í hann til að vinna.

„Eins og ég hef sagt í allan vetur að þegar við erum að gera þetta saman og allir á fullu í 60 mínútur þá erum við ógeðslega góðir,“ sagði Ísak  sem fékk erfiðari leik í kvöld eins og hann átti von á en hann fór mikinn í að opna fyrir samherja sína í leiknum.

„Haukarnir voru ekki góðir í fyrsta leiknum og ég átti von á þeim miklu sterkari sem gerðist. Þetta var miklu erfiðari leikur og þeir tóku miklu fastar á okkur og við svöruðum því hinum megin. Það skilaði okkur þessum sigri.

„Þeir stigu langt út í mig, ég er stór og hátt uppi í loftinu og sé ágætlega. Ég reyndi að velja þann sem var í besta færinu og það var yfirleitt ekki ég. Mér finnst gaman að skjóta en það er líka gaman að búa til mörk,“ sagði Ísak.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×