Innlent

Sjávarpláss of háð einu fyrirtæki

Bæjarstjórinn á Ísafirði segir allt of mörg sjávarþorp eiga allt undir einum atvinnurekenda. Sjávarútvegráðherra hefur áhyggjur af smærri byggðarlögum vegna brotthvarfs útgerðarfyrirtækja þaðan.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra lýsti áhyggjum sínum á smærri byggðarlögum vegna breytinga í sjávarútvegi í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag. Líkt og fjallað hefur verið um að undanförnu þá hefur fyrirtækið Vísir hf ákveðið að hætta starfsemi á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri.

„Við erum auðvitað að reka sjávarútveg sem drifinn er áfram af markaðsvæðingu og hagræðingu. Það er hluti af því sem er mjög gott fyrir samfélagið en hefur auðvitað áhrif í smærri byggðum og það er áhyggjuefni,“ segir Sigurður Ingi. Varlega þurfi þó að fara í ríkisinngripum.

Daníel Jakobsson bæjarstjóri á Ísafirði bendir á mikilvægi þess að umræða fari fram um stöðu íslenskra sjávarþorpa líka og þingeyrar sem byggi allt sitt á fiskvinnslu.

„Til lengri tíma er þá að byggja Þingeyri sem og öðrum þorpum framtíð  sem byggir á öruggari afkomu en á einum atvinnurekanda. Ég myndi vilja að það yrði farið yfir allt byggðakerfið okkar og alla byggðaaðstoð og ég held að menn eigi ekkert að vera feimnir að segja það að þorp eins og Þingeyri munu þurfa einhverjar mótvægisaðgerðir.“

Rætt var við Daníel í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×