Viðskipti innlent

Stórt skref í afnámi fjármagnshafta

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Landsbankinn og slitastjórn gamla Landsbankans, LBI hf., hafa komist að samkomulagi um breytingar á uppgjörsskuldabréfum sem samið var um í desember 2009, en eftirstöðvar þeirra eru nú að jafnvirði um 226 milljarðar króna.

Samkomulagið felur í sér að lokagreiðsla verði innt af hendi í október 2026 í stað október 2018. Endurgreiðslurnar verða samkvæmt tilkynningu frá Landsbankanum á tveggja ára fresti og dreifast nokkuð jafnt. Landbankinn hefur þá heimild til að greiða skuldina að hluta eða að fullu án kostnaðar, hvenær sem er á tímabilinu.

Þannig mun greiðslubyrði Landsbankans minnka og er með þessu búið að fjarlæga mikilvægan þátt, sem stóð í vegi fyrir afnámi fjármagnshafta.

„Skilmálarnir eru mjög vel viðráðanlegir fyrir Landsbankann og mun þessi breyting auðvelda honum alþjóðlega lánsfjármögnun. Þá felur samkomulagið í sér að sérstökum hömlum á arðgreiðslur hefur verið hrundið úr vegi, til hagsbóta fyrir hluthafa bankans,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

„Samkomulagið er jafnframt mikilvægur þáttur í að leysa úr þeim stóru viðfangsefnum sem tengjast skuldastöðu þjóðarbúsins og afnámi gjaldeyrishafta. Við teljum þennan áfanga því mjög mikilvægan fyrir íslenskt efnahagslíf sem og Landsbankann.”

Vaxtakjör verða óbreytt til október árið 2018, þ.e. 2,9% álag ofan á LIBOR vexti. Eftir það fer vaxtaálagið stighækkandi og verður 3,5% vegna gjalddaga 2020 og að lokum 4,05% vegna lokagjalddagans árið 2026. Hver gjalddagi á tímabilinu frá 2020 til 2026 er að jafnvirði um 30 milljarða íslenskra króna.

Skuldabréfin voru upphaflega gefin út á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins samkvæmt ákvæðum neyðarlaganna. Fjárhæðin var ákveðin sem mismunur á virði eigna og skulda sem fluttar voru yfir til Landsbankans.

Í kynningu Sigríðar Benediktsdóttur, framkvæmdarstjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum, þann 9. apríl, eru afborganir af skuldabréfunum á milli Landsbankans og LBI taldar vega þungt í þungri greiðslubyrði þjóðarbúsins. Það að lengja í skuldina er einnig talið draga verulega úr áhættu tengdri greiðslujöfnuði þjóðarbúsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×