Innlent

Jón Gnarr vekur heimsathygli

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Jón Gnarr hefur vakið mikla athygli.
Jón Gnarr hefur vakið mikla athygli.
Jón Gnarr borgarstjóri hefur fengið mikla athygli í erlendum fjölmiðlum að undanförnu. Í gær birti miðillinn Vice ítarlegt viðtal við borgarstjórann og í því var farið yfir kjörtímabilið sem nú er senn á enda. Jón sagði þar opinskátt frá aðferðafræði sinni í stjórnmálum, hvernig hann þykist stundum vita minna en hann veit í raun og hvernig hann notar gleði og húmor til þess að ná til andstæðinga sinna.

Auk viðtalsins í Vice var tvívegis rætt um borgarstjórann í spjallþættinum The Late Show with Craig Ferguson sem sýndur er á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS. Fyrst var rætt um Jón þann 23. apríl. Þá var hinn frægi grínisti Eddie Izzard í heimsókn hjá Ferguson og ræddu þeir um borgarstjóra Reykvíkinga og sögðust virkilega ánægðir með hann.

Ferguson sagðist, í gleðitóni, ætla að bjóða sig fram til þings. Þáttinn má sjá hér að neðan.

Anarkistinn að flytja til Texas

Í viðtalinu sem birtist á vef Vice segir Jón frá því að hann haldi að hann muni flytjast til Texas í náinni framtíð. Blaðamaðurinn skilgreinir Jón sem anarkista, grínista og borgarstjóra í fyrirsögn viðtalsins.

Jón segist halda að hann muni flytjast til Texas, en segist ekki vita það. Jón segir í viðtalinu að hann trúi mikið á tilviljanir. „Fólk segist oft ekki trúa á tilviljanir. En ég trúi á þær. Ég trúi ekki á Guð. Ég trúi mjög sterkt á tilviljanir og ég er ekki viss um að við höfum í raun frjálsan vilja. Ég veit ekki hvort heilinn minn er búinn að taka einhverjar ákvarðanir um hvað sé næst á dagskrá. En mig grunar sterklega – sem er mjög skrýtið – að ég sé á leiðinni til Texas. Ég hef aldrei farið þangað. Fyrir mér er Texas eins og Mordor,“ segir borgarstjórinn og vísar í Hringadróttinssögu JR Tolkien.

The Wire og tilraunin

Frægt er að Jón fór fram á að aðrir stjórnmálamenn horfðu á alla þættina af The Wire, áður en stjórnarmyndunarviðræður hæfust.

Í viðtalinu segir Jón að hann hafi viljað sjá hvort að aðrir tækju þessa hugmynd hans alvarlega. „Ég velti því fyrir mér hvort þeir myndu undirbúa sig fyrir spurningar upp úr þáttunum.“

Í viðtalinu segir Jón einnig frá því að hann hafi jafn gaman af mannfólki og tölvunördar hafi af tölvum. „Og ef mér finnst einhver manneskja vera ógnandi þá er örugglega bara eitthvað að vélbúnaðinum í henni.“

Borgarstjórinn horfir upp til Bruce Lee

Jón segir frá því að vera hans í stjórnmálum hafi verið eins konar tilraun. „Ég horfði til Bruce Lee. Sem ég lít mikið upp til. Ég dýrka manninn, sögu hans og hvernig hann varð til. Hann kom inn í mjög erfiðar aðstæður í Bandaríkjunum. Ekki aðeins sem asískur maður í Bandaríkjunum, hann var nefnilega líka gagnrýndur af löndum hans, frá Kína, sem sökuðu hann um að kenna öðrum en Kínverjum Kung-Fu. En hann náði að sanna sig og verða ofurhetja.“

Jón segir sögu Bruce Lee hafa hvatt hann áfram og bendir á að með því að hafa farið í stjórnmál hafi hann verið að stíga inn í aðstæður sem voru honum erfiðar. „Alla mína tíð hafði ég verið í kringum fólk sem var með svipaðar skoðanir og svipað gildismat en ég. Að  stíga inn í stjórnmálin var áskorun fyrir mig og ég vissi að mér yrði illa tekið. Í raun vanmat ég hversu illa mér var tekið, ég vissi ekki að grimmdin yrði svona mikil.“

Jón líkir fjárhagslegu ástandi Reykjavíkur við Detroit í Bandaríkjunum. „Reykjavík hefði hæglega getað orðið gjaldþrota,“ og bætir við að jafn lítið hagkerfi og á Íslandi hefði einfaldlega ekki þolað það.

Jón segist hafa svarað gagnrýnisröddum á heimspekilegum nótum. „Þegar einhver sagði að okkur myndi aldrei takast að laga fjárhaginn, spurði ég hvað þýðir „aldrei“? Ég sagði þeim að „aldrei“ vísaði til eilífðar. Og allt í einu vorum við farin að ræða eilífðina í borgarstjórn.“ Jón segir svona umræður hafa verið nauðsynlegar svo gæti þraukað í borgarstjórn. „Við vorum orðin eins og Einstein, að ræða tímann. Svona hélt ég lífi í þessum umræðum.“

„Ég hef heyrt um þennan borgarstjóra“

Þann 23. Apríl ræddu grínistarnir Eddie Izzard og Craig Ferguson um Jón í þættinum The Late Night Show with Craig Ferguson.

„Hefuru heyrt um þennan borgarstjóra í Reykjavík?“ spyr Craig Ferguson og Eddie Izzard svarar játandi.

Ferguson bætir við „hann virðist vera algjör topp maður,“ og gerir tilraun til þess að segja nafn Jóns Gnarr. „Ég er mjög heillaður af honum,“ bætir Ferguson við.

Félagarnir fara svo að ræða framboð grínista og Ferguson fullyrðir að hann ætli sér að fara í þingframboð – en greinilegt er að þær fullyrðingar eru allar á léttu nótunum.

Viku eftir heimsókn Izzards kom Jim Gaffigan til Ferguson (þeir byrja að ræða um Jón Gnarr og Ísland eftir rúmar 25 mínútur). Þeir ræddu um heimsókn hans til Íslands. Í þættinum segir Gaffigan frá því að hann hafi reynt að ná sambandi við Jón en ekkert gengið. Hann ræddi einnig um fegurð landsins og einkennilega siði – eins og að borða sviðakjamma.

Hér að neðan má sjá heimsókn Eddie Izzards til Ferguson. Þeir byrja að ræða um Jón Gnarr eftir um 25 mínútur og 30 sekúndur. Einnig má sjá tíst Lady Gaga um Jón Gnarr þar fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×