„Það er ekkert að marka þetta,“ segir S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar Framtíðar, um fyrstu tölur í borgarstjórnarkosningunum sem birtust nú fyrir skemmstu .
Björt framtíð er með 14,8 prósent fylgi, sem er talsvert minna en flokkurinn mældist með í skoðanakönnunum. Flokkurinn fær tvo borgarfulltrúa en Besti flokkurinn, sem er fyrirrennari Bjartrar framtíðar var með fimm fulltrúa á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka.
„Ég held að okkar fólk hafi farið í „bröns“ áður en það fór á kjörstað og því koma atkvæðin þeirra seinna,“ segir hann léttur. Hann segir sitt fólk í Bjartri framtíð ekki hafa áhyggjur af þessum tölum. „Nei, við erum bara að skemmta okkur hérna á Hótel Borg. Stemningin verður fín fram eftir nóttu, ég er alveg viss um það. Við bíðum bara eftir því að fleiri atkvæði verði talin,“ segir hann.
