Enski boltinn

Kolbeinn Sigþórsson orðaður við QPR

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kolbeinn í leik með Ajax.
Kolbeinn í leik með Ajax. Vísir/Getty
Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska landsliðsins og Ajax, er orðaður við QPR í breska miðlinum Daily Mail í dag. Kolbeinn viðurkenndi í samtali við blaðamann Fréttablaðsins í síðustu viku að tími væri kominn til þess að taka næsta skref á ferlinum.

QPR sýndi Kolbeini áhuga í janúarglugganum en hollenski klúbburinn var ekki tilbúinn að leyfa Kolbeini að fara á miðju tímabili. Afstaðan er önnur í dag og er klúbburinn tilbúinn að selja Kolbein fái þeir rétt verð fyrir hann.

Samkvæmt miðlinum hefur ekki aðeins QPR fylgst með Kolbeini undanfarna mánuði. Nefnir miðillinn þar til sögunnar Celtic, Liverpool og Newcastle. Talið er að Ajax vilji fá sex milljónir fyrir Kolbein.

Þegar Kolbeinn var orðaður við QPR í janúarglugganum gerði Andri Sigþórsson, umboðsmaður Kolbeins, lítið úr sögusögnunum. Samkvæmt Andra vildi Kolbeinn ekki spila í 1. deildinni. QPR tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni með sigri á Derby í umspili á dögunum og gæti Kolbeinn því verið á förum til Englands í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×