Innlent

Eigandinn býður 200 þúsund krónur í fundarlaun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/MAST
Border Collie hundsins Hunter er enn leitað á Miðnesheiði eftir að hann slapp úr búri sínu á Keflavíkurflugvelli á föstudag. Vísir flutti fréttir af því fyrir helgi að hundinn hafi verið að flytja yfir Atlantshafið og þegar verið var að taka hann frá borði og setja yfir í aðra flugvél hafi búrið opnast og dýrið slapp.

Víðtæk leit var gerð að hundinum á Suðurnesjum í gær, þar á meðal var flogið yfir svæðið í þyrlu og lögregla og björgunarsveitarmenn óku um slóða á Miðnesheiði, þar sem talið er að hafi sést til hundsins á föstudagskvöld. Fjöldi fólks á Suðurnesjum hefur einnig tekið þátt í að svipast um eftir hundinum er fram kemur í frétt RÚV.

Icelandair bauð tvo flugmiða í fundarlaun hverjum sem hefði hendur í hári Hunter en sú leit hefur enn engan árangur borið. Málið er litið mjög alvarlegum augum því strangar reglur gilda um innflutning hunda til Íslands og er tilgangur þeirra að tryggja eins og best verður á kosið að ekki berist til landsins ný smitefni.

Í samtali við RÚV segir eigandi hundsins, sænsk kona sem búsett er í Bandaríkjunum, að hver sá sem kemur með hundinn á lífi til sín fái að launum 200 þúsund krónur í reiðufé.

Hún vandar starfsmönnum IGS á Keflavíkurflugvelli ekki kveðjurnar. Hún segir búr Hunters hafa fallið úr nokkurra metra hæð af færibandi en vallarstarfsmönnunum hafi láðst að halda á því. Það hafi ekki átt að fá sömu meðferð og annar farangur.

Sem fyrr segir er Hunter svartur Border Collie með hvítum skellum og hvetur lögreglan alla sem eiga ferð um Suðunes að líta eftir hundinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×