Innlent

Jón Ásgeir segir kappsama saksóknara hættulega samfélaginu

Randver Kári Randversson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. Vísir/Hörður
Jón Ásgeir Jóhannesson ritar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fjallar um Aurum-málið og rannsóknir Sérstaks saksóknara á sér. Hann ber embættið þungum sökum, sérstaklega tvo starfsmenn þess.

„Í þessi tólf ár hafa tveir menn hjá Ríkislögreglustjóra og svo Sérstökum saksóknara farið fremstir í flokki. Ég tel rétt að þeir séu nafngreindir. Þetta eru lögreglumennirnir Grímur Grímsson og Sveinn Ingiberg Magnússon. Ég leyfi mér að vona að fleiri jafn óheiðarlegir lögreglumenn fyrirfinnist ekki hér á landi. Ég tel þá vera uppvísa að því að leyna mikilvægum gögnum við rannsókn málanna og hafa snúið út úr framburðum annarra sem hafa verið bornir undir mig. Mér finnst þeir rannsaka mál út frá sektinni einni saman. Með þessu brjóta þeir lög“, skrifar Jón Ásgeir.

Hann gagnrýnir vinnubrögð Sérstaks saksóknara í Aurum-málinu þar sem hann segir Sérstakan saksóknara hafa haldið mikilvægum gögnum frá dómnum.

„Kappsamir saksóknarar, sem verða að verja fyrri gerðir sínar á rannsóknarstigi, eru hættulegir samfélaginu. Í Aurum-málinu reyndi Sérstakur saksóknari að halda frá dómnum mjög mikilvægum gögnum. Gögnum, sem gátu skilið á milli þess hvort við sem vorum ákærðir yrðum dæmdir til fangelsisvistar eða ekki.“

Jón Ásgeir telur að íslenska ríkið hafi eytt um 3,5 milljörðum í rannsóknir á hendur sér síðustu tólf árin og segir að aldrei fyrr í Íslandssögunni hafi einum manni verið haldið sem sakborningi í tólf ár. Þrátt fyrir sterkan vilja rannsóknar- og saksóknarvaldsins til að koma honum í fangelsi hafi það ekki tekist.

 „Ég veit ekki hvað ég á ekki að hafa gert. Ég held að á þessum tíma hafi ég verið sakaður um allar tegundir viðskiptabrota sem til eru. Út úr þessu hefur ekkert komið miðað við allar þær sakir, sem á mig hafa verið bornar,“ skrifar Jón Ásgeir.

Hann staðhæfir að upphaf mála gegn honum megi rekja til óvildar fyrrverandi áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum í hans garð og vísar þar til þess þegar tölvupóstar Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, og Jónínu Benediktsdóttur voru opinberaðir fyrir níu árum.

Að lokum segist Jón Ásgeir vænta mikils af niðurstöðu máls síns gegn íslenska ríkinu hjá Mannréttindadómstól Evrópu, enda sjái það allir að ekki sé hægt að halda manni í stöðu sakbornings í tólf ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×