Fótbolti

Þrjú íslensk mörk í Stafangri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Daníel var á skotskónum í kvöld.
Björn Daníel var á skotskónum í kvöld. Vísir/Valli
Jón Daði Böðvarsson, Björn Daníel Sverrisson og Steinþór Freyr Þorsteinsson voru allir á skotskónum í norsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Viking vann þá öruggan 4-1 sigur á Stabæk en auk þeirra voru Sverrir Ingi Ingason og Indriði Sigurðsson í byrjunarliði fyrrnefnda liðsins.

Steinþór Freyr klikkaði reyndar á vítaspyrnu á 82. mínútu leiksins en bætti fyrir það fjórum mínútum síðar. Mörk Jón Daða og Björns Daníels komu einnig í síðari hálfleik.

Guðmundur Þórarinsson var svo í liði Sarpsborg sem tapaði 4-0 fyrir Haugesund. Þórarinn Ingi Valdimarsson kom inn á sem varamaður í hálfleik í liði Sarpsborgar.

Hannes Þór Halldórsson fékk svo á sig þrjú mörk þegar að Sandnes Ulf tapaði fyrir Álasundi, 3-0 og þá var Pálmi Rafn Pálmason ekki í hópnum hjá Lilleström sem vann Strömsgodset, 3-0.

Viðar Örn Kjartansson náði aldrei þessu jafnt ekki að skora fyrir Vålerenga sem tapaði fyrir Sogndal, 2-0. Hjörtur Logi Valgarðsson spilaði allan leikinn fyrir síðarnefnda liðið.

Þá vann Rosenborg 4-2 sigur á Start en þeir Guðmundur Kristjánsson og Matthías Vilhjálmsson spiluðu báðir allan leikinn fyrir Start. Alexander Söderlund, fyrrum leikmaður FH, skoraði tvö mörk fyrir Rosenborg.

Molde gerði 1-1 jafntefli við Bodo/Glimt en Björn Bergmann Sigurðarson var ekki í leikmannahópi Molde.

Að síðustu tapaði Brann fyrir Odd, 1-0. Birkir Már Sævarsson var að venju í byrjunarliði Brann.

Molde er á toppnum með 30 stig en Strömsgodset og Odd koma næst með 24 stig hvort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×