Innlent

Víðtækar verkfallsaðgerðir boðaðar í næstu viku

Birta Björnsdóttir skrifar
Náist samningar ekki í kjaradeilu flugvirkja Icelandair við félagið leggja flugvirkjar niður störf á mánudaginn kemur í sólarhring. Þá hafa verið boðaðar ótímabundnar verkfallsaðgerðir frá og með 19. júní.

Fundað var í húsnæði ríkissáttasemjara í dag og stóð fundur enn yfir nú rétt fyrir fréttir.

Stjórn samtaka ferðaþjónustunnar sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þeir hvetja samningsaðila til að leita allra leiða til að ná sáttum í deilunni sem fyrst. Komi til vinnustöðvunar á mánudaginn kemur muni það hafa mikil áhrif á alla skipulagða ferðaþjónustu hér  á landi. Vinnustöðvunin muni hafa áhrif á fleiri farþega þennan eina dag en allar verkfallsaðgerðir flugmanna nú á vormánuðum samanlagt. Nú þegar sé áhrifa farið að gæta hjá ferðaþjónustuaðilum, og eitthvað sé um að ferðamenn hafi afbókað ferðir sínar vegna óvissunar.

En það eru ekki bara flugvirkjar sem boða verkfall í næstu viku. Leikskólakennarar leggja einnig niður störf þann 19.júní næstkomandi, náist samningar ekki í kjaraviðræðum.

Næsti samningafundur í kjaradeilu leikskólakennara við Samband íslenskra sveitarfélaga er áætlaðu klukkan 11 á morgun. Að sögn Haraldar Freys Gíslasonar, formanns Félags leikskólakennara ber enn mikið í milli, en róið sé öllum árum að því að ná samningi fyrir fimmtudaginn í næstu viku.

Ekki eru allir starfsmenn leikskóla landsins í Félagi leikskólakennara, en að sögn Haraldar munu þó velflestar deildir loka komi til vinnustöðvunar á fimmtudaginn næsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×