Verslunarmiðstöðin Smáralind gefur Reykjavíkurborg höggmyndina Hafmeyjuna eftir Nínu Sæmundsson í höggmyndagarð sem komið verður upp til minningar um formæður íslenskrar höggmyndalistar í Hljómskálagarðinum.
Önnur afsteypa Nínu af Hafmeyjunni stóð í Tjörninni fyrir um 55 árum eða frá ágúst 1959 til nýársdags 1960 þegar hún var sprengd í loft upp.
Hafmeyjan er steypt í brons eftir frummynd, sem Nína vann um 1948.
Hugmyndin að listaverkinu er komin frá þjóðsögunni um hafmeyjuna sem sat á kletti í hafinu og lokkaði sjófarendur með söng sínum, þeir hurfu síðan niður í sjávardjúpin í faðmi hennar.
