Innlent

Flugvirkjar hrella ferðaþjónustufólk

Jakob Bjarnar skrifar
Frá samningaviðræðunum.
Frá samningaviðræðunum. visir/pjetur
Samtök ferðaþjónustunnar skora á flugvirkja og Icelandair að ná samningum áður en til boðaðs verkfalls flugvirkja kemur hinn 19. júní. Í ályktun stjórnar samtakanna segir að á vormánuðum hafi ferðaskipuleggjendur erlendis hætt  við fjölmargar ferðir hingað til lands og séu þeir nú að íhuga að hætta við fleiri ferðir hingað á næstunni, vegna yfirvofandi verkfalls.

Í tilkynningu sem samtökin hafa sent frá sér kemur fram að verkfallsaðgerðir flugstarfsmanna á vormánuðum hafi leikið ferðaþjónustuna grátt. Fjölmörg fyrirtæki í ferðaþjónustu stigu fram og lýstu yfir áhyggjum sínum og vonbrigðum með stöðu mála, en í kringum 90 flugferðum var aflýst í aðgerðunum sem hafði áhrif á hátt í 12 þúsund farþega. Samningsaðilar náðu sem betur fer saman, þannig að flugsamgöngur til og frá landinu hafa haldist opnar síðustu vikur.

„Nú sitja flugvirkjar og Icelandair við samningaborðið, en flugvirkjar hafa boðað sólarhrings vinnustöðvun mánudaginn 16. júní næstkomandi. Komi til verkfalls mun það strax hafa gríðarleg áhrif, en þann eina dag eiga um 12 þúsund farþegar flug. Til samanburðar höfðu verkfallsaðgerðir nú á vormánuðum áhrif á jafn marga farþega, en á mun fleiri dögum.“

Nú er háönn ferðamannasumarsins hafin og fyrirhugaðar aðgerðir munu því skella á ferðaþjónustunni af fullum þunga. Í tilkynningunni segir að ímynd og orðspor Íslands sem ferðamannastaðar er í mikilli hættu, „enda eru öruggar samgöngur til og frá landinu eitthvað sem verður að vera hægt að treysta á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×