Enski boltinn

Shaw og Herrera kosta á við fimm ára sölu á Skoda á Íslandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tveir leikmenn eða 3.000 Skoda-bílar?
Tveir leikmenn eða 3.000 Skoda-bílar? Mynd/samsett
Manchester United keypti enska landsliðsbakvörðinn Luke Shaw frá Southampton í dag, en í gær gékk félagið frá kaupum á spænska miðjumanninum AnderHerrera frá Athletic Bilbao.

Shaw er 18 ára gamall og spilaði sinn fyrsta leik á HM í vikunni þegar hann fékk tækifærið gegn Kostaríka, en Herrera er 24 ára gamall og hefur leikið í þrjú ár með Athletic Bilbao í baskalandi á Spáni.

Man. Utd borgaði samtals 60 milljónir punda fyrir leikmennina tvo eða jafnvirði tólf milljarða íslenskra króna. Shaw kostaði 31 milljón punda og er næstdýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins á eftir Juan Mata, en Herrera kostaði 29 milljónir punda og er sá fimmti dýrasti.

Það er ýmislegt sem má gera fyrir tólf milljarði króna, en Vísir hafði samband við Heklu og spurðist fyrir um hvað góð Skoda bifreið kostaði í dag. Bent var á miðlungs útgáfu af Skoda Oktavia A7 sem kostar um fjórar milljónir íslenskra króna.

Það má kaupa hvorki fleiri né færri en 2.950 slíka bíla fyrir peninginn sem Manchester United eyddi í Shaw og Herrera. Fengust þær upplýsingar hjá Heklu að það jafnaðist á við fimm ára sölu af Skoda bifreiðum hjá umboðinu.

Nú er bara vonandi fyrir enska félagið að leikmennirnir hjálpi United aftur upp á meðal þeirra bestu þannig yfirmenn á Old Trafford sjái ekki eftir því að fara ekki með peninginn í Heklu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×