Enski boltinn

Manchester City staðfestir kaupin á Fernando

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando.
Fernando. Vísir/Getty
Englandsmeistarar Manchester City hafa gengið frá kaupum á brasilíska miðjumanninum Fernando en kaupverðið er í kringum tólf milljón punda eða um 2,3 milljarðar íslenskra króna. Þetta kemur fram á BBC.

Fernando er 26 ára gamall og var sterklega orðaður við City-liðið í janúarglugganum. Hann er annar leikmaðurinn með Manchester City fær til sín í sumar en ensku meistararnir höfðu áður samið við franska bakvörðinn Bacary Sagna frá Arsenal.

„Ég er mjög ánægður með að fá að spila með Manchester City. Þetta eru mjög spennandi tímar hjá félaginu og ég get ekki beðið eftir því að spila í ensku úrvalsdeildinni," sagði Fernando í viðtali við BBC.

Fernando kom til Porto árið 2007 og varð fjórum sinnum portúgalskur meistari með félaginu auk þess að vinna Evrópudeildina með Porto árið 2011.

Fernando hefur aldrei spilað landsleik fyrir Brasilíu en hann spilar sem varnartengiliður. Hann fær treyju númer sex hjá Manchester City og tekur við henni af Joleon Lescott sem er á förum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×