Viðskipti innlent

Leiddu fagfjárfesta og nýsköpunarfyrirtæki saman

Haraldur Guðmundsson skrifar
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Kauphöllin, Nasdaq OMX Iceland, hélt nýverið sitt fyrsta svokallaða Stefnumót við nýsköpunarfyrirtæki – lokaðan fund fagfjárfesta og nýsköpunarfyrirtækja sem komin eru nokkuð á legg. Á fundinum kynntu stjórnendur ellefu fyrirtækja starfsemi þeirra og sýndu jafnmörg kynningarmyndbönd um hvert og eitt fyrirtæki.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir markmið fundarins að brúa bilið á milli þessara fyrirtækja, sem geti orðið næstu Marel og Össur, og fagfjárfesta.

„Það hefur sárlega vantað vettvang fyrir þessa aðila að mætast. Hér á Íslandi eigum við til gríðarlega mikið af öflugum nýsköpunarfyrirtækjum sem eru komin vel á legg, starfa á alþjóðlegum vettvangi og líta björtum augum til framtíðar. Það eru þau og fleiri að sjálfsögðu sem koma til með að verða okkar grundvöllur fyrir vexti í efnahagslífinu, skapa ný störf og þannig auka hagvöxt,“ segir Páll.

Hann segir nauðsynlegt að greiða leið þessara fyrirtækja þannig að þau geti búið við sem besta möguleika á framtíðarvexti.

„Ekki síst þegar kemur að því að afla fjármagns á markaði. Við erum vongóð um að lífeyrissjóðsfrumvarpið verði samþykkt á haustþingi, þannig að lífeyrissjóðir geti litið á hluta- og skuldabréf á First North sem skráð í sínum bókum. Sú breyting myndi breyta landslagi og möguleikum smærri og meðalstórra fyrirtækja til vaxtar svo um munar og gæti orðið áþreifanleg umbreyting til batnaðar í atvinnu- og efnahagslífinu,“ segir Páll.

Kynningarmyndböndin ellefu má finna hér að neðan.

Með starfsstöðvar í fimm löndum

Mentor á rætur að rekja til ársins 1990. Mentor er heildstætt upplýsinga- og námskerfi fyrir þá sem starfa með börnum, hvort sem er í skólum eða í tómstundastarfi. Fyrirtækið er með rúmlega 20 ára reynslu af rekstri og þróun upplýsingakerfa fyrir skóla og aðra.  Félagið er með starfsstöðvar í fimm löndum. Auk höfuðstöðvanna á Íslandi er fyrirtækið með skrifstofur í Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss og Bretlandi, þar sem vinna samtals um 50 manns. 



Með áherslu á Japansmarkað

Cooori er íslenskt sprotafyrirtæki stofnað í lok árs 2010, sem sérhæfir sig í veflausnum til tungumálanáms sem eiga sér enga hliðstæðu. Fyrstu vörur félagsins hafa þegar verið settar á markað með áherslu á Japansmarkað. Cooori sækir inn á alþjóðlegan markað sem veltir nú um 60 milljörðum Bandaríkjadala á ári.



Lausnir sem minnka kostnað við rekstur

Kaptio, stofnað 2012, er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í opnum og tengjanlegum veflausnum sem keyrð eru á opna skýinu. Kaptio hjálpar fyrirtækjum að innleiða lausnir til að minnka kostnað við rekstur upplýsingatæknikerfa ásamt því að auka framleiðni starfsmanna með því að bjóða upp á tól sem virka óháð staðsetningu. Helsta vara Kaptio, „Kaptio Travel CRM“,  er í notkun hjá ferðaskrifstofum á Íslandi og Bretlandi. 



Selur hugbúnaðinn QStack

GreenQloud, stofnað 2010, er hugbúnaðar- og hýsingalausnafyrirtæki. Fyrirtækið framleiðir og selur hugbúnaðinn QStack sem gerir hverjum sem er kleift að búa til tölvuský á eigin búnaði og lækka mjög kostnað tölvukerfa. GreenQloud nýtir sjálft QStack til að bjóða upp á sjálfsafgreiðslu tölvuskýið GreenQloud.com sem keyrir í íslenskum og bandarískum gagnaverum og er fyrsta græna tölvuský í heimi. GreenQloud sækir inn á gríðarstóran markað sem veltir um 20 milljörðum dollara á ári hverju.



Ætlar að byggja vatnsverksmiðjuskip

Icelandic Water Line var stofnað árið 2009 um hugmynd að útflutningi á íslensku vatni í miklu magni. Hundrað þúsund tonna fullkomið vatnsverksmiðjuskip verður byggt;  það tekur inn á sig vatn, framleiðir vatnsflöskur, tappar vatninu á og flytur vöruna tilbúna á markað. Aðferðin gæti lækkað framleiðslu- og flutningskostnað á vatni verulega. Fyrsta sjósetning á skipi Icelandic Water Line er áætluð 2017-18.



Lausnir til meðhöndlunar vefjaskaða

Þróunarverkefni Kerecis hófust árið 2009, en fyrirtækið þróar tækni og markaðssetur lausnir til meðhöndlunar á vefjaskaða. Fyrsta vara Kerecis, sem samþykkt er af FDA og evrópskum skráningaryfirvöldum, er meðhöndlunarefni fyrir þrálát sár og hefur gefið góða raun m.a. í baráttunni við sykursýkissár. Aðrar nýjar vörur snúa að uppbyggingu á sköðuðum líffærum. Tækni félagsins byggir á notkun á roði og hafa einkaleyfi þegar verið fengin til verndar tækninni á helstu mörkuðum félagsins.  



Greina svefnraskanir

Nox Medical ehf. var stofnað árið 2006 á grunni Flögu hf. Nox Medical setur sína fyrstu vöru á markað í lok árs 2009, en fyrirtækið er nú leiðandi á heimsvísu á sviði hönnunar, framleiðslu, sölu og markaðssetningar á búnaði sem notaður er til greiningar á svefnröskunum. Vörur fyrirtækisins eru seldar um allan heim og á síðasta rekstrarári velti félagið rúmum milljarði íslenskra króna. Hjá Nox Medical starfa nú um 30 manns. 



Hugbúnaðurinn í 15 löndum

Meniga, stofnað 2009, er ört vaxandi íslenskt fyrirtæki sem er markaðsleiðandi á heimsvísu í þróun og sölu heimilisfjármálahugbúnaðar og afleiddum gagnavörum til fjármálastofnana.  Um 15 milljónir manna sem eru í viðskiptum við rúmlega 20 fjármálastofnanir í 15 löndum hafa aðgang að hugbúnaði Meniga. Hjá Meniga starfa nú rúmlega 80 manns á skrifstofum fyrirtækisins í Reykjavík, Stokkhólmi og London. 



Stofnað fyrir 22 árum

Stiki er 22 ára ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í að aðstoða fyrirtæki um allan heim við að efla rekstur sinn með skilvirkum gæða- og öryggisstjórnkerfum. Nýjasta vara Stika er Risk Management Studio (RM Studio), sem er  hugbúnaður sem heldur utan um gæða- og öryggisstjórnkerfi fyrirtækja.  Varan er notuð af um fimmta tug fyrirtækja í 18 löndum. 



Selur Bioeffect í 25 löndum

ORF Líftækni hf. er nýsköpunarfyrirtæki á sviði líftækni sem framleiðir verðmæt, sérvirk prótein úr fræjum byggplöntu, sem eru notuð í húðvörur og til læknisfræðirannsókna víða um heim. Húðvörur félagsins eru seldar undir vörumerkinu BIOEFFECT í yfir 700 verslunum í 25 löndum. BIOEFFECT er á þremur árum orðið eitt þekktasta, íslenska vörumerkið á neytendamarkaði erlendis. ORF Líftækni er með höfuðstöðvar í Kópavogi og gróðurhús í Grindavík. Hjá ORF starfa um 40 manns. 



Lágmarka eldsneytisnotkun skipaflota

Marorka var stofnað 2002 og er leiðandi í lausnum fyrir orkustjórnun í skipaiðnaðinum um allan heim. Með vörum Marorku er hægt að lágmarka eldsneytisnotkun skipaflota og hámarka orkunýtni, sem leiðir til minni skaðlegs útblásturs og kostnaðar. Höfuðstöðvar Marorku eru í Reykjavík, en skrifstofur og samstarfsaðilar eru út um allan heim. 









Fleiri fréttir

Sjá meira


×