Fótbolti

Suarez stal sviðsljósinu í sigri Úrúgvæ

Edison Cavani og Giorgio Chiellini í alvöru átökum í teignum.
Edison Cavani og Giorgio Chiellini í alvöru átökum í teignum. Vísir/Getty
Luis Suarez minnti enn og aftur á dómgreindarskort sinn í 1-0 sigri Úrúgvæ á Ítalíu á Heimsmeistaramótinu í dag. Suarez beit Giorgio Chiellini stuttu áður en Úrúgvæ skoraði sigurmark leiksins.

Ljóst er að Suarez er á leiðinni í langt bann en þetta er í þriðja sinn sem Suarez bítur leikmann á vellinum. Suarez var dæmdur í 7 leikja bann fyrir að hafa bitið Otman Bakkal í leik með Ajax og þremur árum síðar í 10 leikja bann fyrir að bíta Branislav Ivanovic en virðist ekkert hafa lært af því.

Ítölum dugði jafntefli en Úrúgvæ þurfti á sigri að halda til þess að komast áfram í 16-liða úrslitin. Leikurinn var dapur í fyrri hálfleik og var staðan markalaus í hálfleik.

Ítalir urðu fyrir áfalli í upphafi seinni hálfleiks þegar Claudio Marchisio fékk beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu. Þrátt fyrir að vera manni færri gekk leikmönnum Úrúgvæ illa að skapa sér færi.

Diego Godin kom Úrúgvæ yfir þegar tíu mínútur voru til leiksloka með skalla eftir hornspyrnu Gaston Ramirez og skyndilega þurftu Ítalir að sækja manni færri. Þrátt fyrir að hafa reynt að auka sóknarþungann náðu Ítalir ekki að skapa sér almennileg færi og lauk leiknum því með 1-0 sigri Úrúgvæ.

Það verður því Úrúgvæ sem leikur í 16-liða úrslitum í ár en Ítalir eru á leiðinni heim.


Tengdar fréttir

Jafnt í bragðdaufum leik

Kosta Ríka og England skildu jöfn í bragðdaufum leik í Belo Horizonte í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×