Innlent

Ómar segir sig úr Framsókn: "Flokkurinn þarf að gera miklu hreinna fyrir sínum dyrum“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ómar Stefánsson hefur verið oddviti Framsóknar í Kópavogi en hefur nú sagt skilið við flokkinn.
Ómar Stefánsson hefur verið oddviti Framsóknar í Kópavogi en hefur nú sagt skilið við flokkinn.
Ómar Stefánsson, fyrrum oddviti Framsóknarmanna í Kópavogi, sagði sig úr flokknum á mánudag. Ástæðuna segir hann vera þá stefnu sem Framsóknarflokkurinn tók í kosningabaráttunni í málefnum útlendinga. En eins og kunnugt er lét Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar í Reykjavík, þau ummæli falla í kosningabaráttu að draga ætti lóðarúthlutun til múslima tilbaka og í kjölfarið þróaðist umræðan í átt að þjóðernispópúlisma að mati Ómars.

„Það var tvennt sem skilaði þessum borgarfulltrúum í Reykjavík. Annars vegar ósmekkleg þjóðernisumræða og skírskotun til útlendingahaturs sem skein í gegn hjá oddvitanum og manneskjunni í öðru sæti. Hins vegar samúðaratkvæði fyrir það hversu heiftarleg viðbrögðin voru, þetta var heiftug umræða af hendi flokksins og svo var heiftug umræða á móti,“ útskýrir hann. „Umræðan í þjóðfélaginu náði aldrei neinum þroska.“

Ómar segist gefa lítið fyrir svokallaðar eftir á skýringar og vísar hann þar í ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, eftir kosningarnar þegar hann sagðist ekkert hafa á móti því að múslimar byggi sér bænahús. „Mér finnst það algjörlega skína í gegn að hvorki formaður, varaformaður né ritari sáu ástæðu til að segja nokkuð í kosningabaráttunni. Vildu leyfa þessari umræðu að tryggja Framsóknarflokknum einhverja stöðu í baráttunni,“ segir hann. Honum finnst það ótækt að þessir þrír einstaklingar sem fara fyrir flokknum hafi neitað að tjá sig á meðan á baráttunni stóð eða láta ná ekki í sig og leyfa umræðunni þar með að þróast á þann hátt sem hún gerði.

Af múslimskum ættum

Blóðfaðir Ómars er múslimi og býr í Jemen. Þar búa einnig níu hálfsystkini hans sem hann heimsækir reglulega. Hann þekkir því hópinn sem varð fyrir mestu aðkasti í kosningabaráttunni persónulega. „Ég veit að það eru ekki þessar öfgar í trúnni sem flokkurinn var að boða. Það skiptir ekki máli í hvaða þjóðfélagi það er, það eru alltaf einhverjar öfgar en að dæma trúarhópa út frá öfgunum er ekki í lagi.“ Hann tók ummælin þó ekki persónulega. „Það sem mér finnst alvarlegast í þessu er að það er fullt af fólki í Framsókn sem eru ekki þessarar skoðunar en á meðan flokkurinn stendur eftir og getur talið hausana á tveimur fulltrúum í Reykjavík eftir kosningabaráttuna þá eru þeir að kynna þessa stefnu. Flokkurinn þarf að gera miklu hreinna fyrir sínum dyrum.“

Ómar hafði ákveðið að hætta í stjórnmálum áður en hann hafði hins vegar aldrei haft í hyggju að segja sig úr Framsóknarflokknum. „Ég hætti útaf þessu máli.“ 


Tengdar fréttir

„Harkalega ráðist á oddvita flokksins í borginni"

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar í Reykjavík, hafi ekki verið meðvitað útspil til að vekja athygli á framboðinu. "Þetta var eitthvað sem hafði verið til umræðu en ekki upp á yfirborðinu.“

Sveinbjörg Birna um andstæðinga múslima: „Þeir veðjuðu á rangan hest“

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir var spurð hvort að Framsóknarflokkurinn ætlaði að beita sér fyrir afturköllun lóðarinnar. „Nei, en við ætlum að beita okkur fyrir því að það fari fram lögleg stjórnsýsla í Reykjavík.“ Vísir fer yfir ummæli Sveinbjargar fyrir borgarstjórnarkosningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×