Enski boltinn

Suárez boðið að spila í Kósóvó á meðan bannið stendur yfir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez má ekki æfa né keppa með Liverpool í fjóra mánuði.
Luis Suárez má ekki æfa né keppa með Liverpool í fjóra mánuði. vísir/getty
Liverpool og Luis Suárez hafa fengið áhugavert tilboð frá liðinu Hajvalia sem leikur í úrvalsdeildinni í Kósóvó. Það vill fá úrúgvæska markahrókinn á láni í fjóra mánuði á meðan hann tekur út leikbannið.

Suárez má ekki koma nálægt fótboltanum næstu fjóra mánuðina eftir að FIFA úrskurðaði hann í algjört bann frá knattspyrnu fyrir að bíta GiorgioChiellini, varnarmann Ítalíu, á HM í Brasilíu.

„Suárez má ekki spila næstu fjóra mánuðina. Þar sem við erum ekki hluti af FIFA ennþá held ég að Suárez geti spilað hérna í Kósóvó. Þess vegna höfum við sent Liverpool tilboð,“ segir Xhavit Pacolli, framkvæmdastjóri félagsins, í viðtali við Sport Plus, blað í Kósóvó.

Hajvalia er tilbúið að greiða Liverpool 25.000 pund fyrir að fá Suárez í þessa fjóra mánuði og sjálfur fær leikmaðurinn 1.200 pund á viku ef hann tekur tilboði félagsins.

„Þetta er það mesta sem við getum boðið. Þetta hljómar kannski fáránlega fyrir honum, en þetta er það eina sem við getum gert.“

„Ef hann vill koma og spila fyrir okkur er hann velkominn. Þar sem við erum ekki hluti af FIFA þá er þetta álitlegur kostur,“ segir Pacolli.

Hajvalia hafnaði í sjötta sæti í úrvalsdeildini í Kósóvó á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×