Umhverfisstofnun hefur veitt starfsleyfi fyrir rekstur kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Leyfið veitir heimild til að framleiða allt að hundrað þúsund tonn af hrákísli á ári, allt að 38 þúsund tonn af kísilryki á ári og allt að sex þúsund tonn af kísilgjalli á ári.
Í tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar segir að í starfsleyfinu sé megináhersla lögð á að takmarka útblástur verksmiðjunnar hún sé fyrirhuguð í tveggja kílómetra fjarlægð frá byggð.
Tekin eru upp ítarleg losunarmörk fyrir heildarlosun einstakra þungmálma, PCDD/PCDF efna og B(a)P til lofts, sem ekki hefur verið gert á þennan hátt í starfsleyfum áður. Einnig er ákvæði um að mæla skuli ryk í útblæstri í samfelldri mælingu.
Þrjár umsagnir vegna starfsleyfisins bárust til Umhverfisstofnunar sem hægt er að sjá á síðu stofnunarinnar. Einkum bárust áhyggjur af fyrirkomulagi útblásturs og drefingu hans. Einnig voru uppi áhyggjur um hvort notaðir séu neyðarskorsteinar og fram kemur vilji til sameiginlegrar umhverfisvöktunar fyrir svæðið.
Í umsögn heilbrigðisfulltrúa var minnt á mikilvægi skýrra leiða til úrgangsmeðhöndlunar og endurvinnslu. Jafnframt var bent á að fráveita hafnarsvæðisisn uppfyllir ekki ákvæði reglugerðar. Reykjaneshöfn mun þó sjá um að skólplagnir verði tengdar fráveitukerfi Reykjanesbæjar og muni standast ákvæði.
