Spenna magnast milli Ísraelsmanna og Palestínumanna á Gaza og er jafnvel búist við allsherjar innrás ísraelshers inn á svæðið. Fimm Palestínumenn hafa fallið í tugi loftárása Ísraelsmanna í dag.
Ísraelski herinn hefur brugðist af mikilli hörku við flugskeytaárásum Hamasliða á Gaza á þorp í Ísrael. Þannig féllu fimm menn á Gaza í dag, þar af fjórir í bíl sem varð fyrir loftárás á miðborg Gaza. Einn hinna föllnu er sagður vera Mohammed Shaaban liðsforingi í hernaðararmi Hamas.
Þetta eru mestu átök frá því í átta daga stríði Ísraelsmanna og Palestínumanna árið 2012 og hefur ísraelski herinn gefið út að allsherjar innrás hersins á Gaza geti verið yfirvofandi á næstunni, en herinn hefur fengið leyfi til að kalla út um 40 þúsund manna varalið.
Tugir manna hafa særst í árásum Ísraelsmanna sem hafa sprengt upp bæði hernaðarleg skotmörk og tugi heimila. Talsmenn ísraelshers segja um eitt hundrað loftskeytaárásir hafa verið gerðar á Ísrael í dag en engar fregnir eru af mannfalli vegna þeirra þótt tveir hafi særst.
Ísraelsmenn hafa handtekið hundruð Palestínumanna frá því þrír ungir Ísraelsmenn voru myrtir hinn 12 júní síðast liðinn við landamærin að Vesturbakkanum og átökin hafa harnað enn frekar eftir að hópur ísraelskra ungmenn drap palestískan ungling með því að brenna hann lifandi.
Keflavík
Grindavík