Innlent

Slökkviliðsstarf mun standa fram á nótt

ingvar haraldsson skrifar
Verið er að rífa húsnæði Griffils enda er það gjörónýtt.
Verið er að rífa húsnæði Griffils enda er það gjörónýtt. vísir/valli
Enn logar eldur í húsakynnum Griffils og efnalaugarinnar Fannar í Skeifunni í Reykjavík en allt tiltækt lið slökkviliðsins var ræst út upp úr klukkan átta í kvöld. Kranabíll er nú að rífa húsnæðið þar sem verslun Griffils er til húsa en lítið annað en burðargrind hússins lifir.

Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri hjá forvarnarsviði Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu segir eld enn vera til staðar í húsinu.

„Við höfum náð stjórn á eldinum en einhver vinna er eftir að slökkva hann. Við munum verða hér langt fram á nótt að slökkva eldinn. Það er ekki hægt að fara inn í bygginguna vegna hættu á að bitar hrynji.“

Bjarni sagði starfsmenn Orkuveitunnar vinna að því að skrúfa fyrir heitt vatn í húsinu til að koma í veg fyrir frekari vatnsskemmdir auk þess að losa niðurföll svo það vatn sem þegar er á svæðinu komist greiðlega á brott.

Björgunarsveitarmenn gæddu sér á sælgæti og gosi úr Víði

Þegar fréttamann bar að garði voru björgunarsveitarmenn að gæða sér á sælgæti og gosi úr hillum verslunar Víðis. Bjarni segir verslunina hafa sloppið ótrúlega vel. „Það er varla reykjarlykt þarna inni.“

Bjarni biðlar til fólks að halda sig utan gulu borðanna öryggi þeirra vegna. „Það er hætta á að húsin hrynji og þá geta bitar úr húsinu skotist í allar áttir.“

Bjarni gerir ráð fyrir því að einhver hluti Skeifunnar verði enn lokaður á morgun.


Tengdar fréttir

Mikill eldur í Skeifunni

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið kallað út vegna mikils elds sem logar í Skeifunni.

Eldurinn kviknaði í Þvottahúsi Fannar

"Það var unnið í þvottahúsinu í dag en enginn var við störf þegar eldurinn kom upp. Þar er náttúrulega mikill eldsmatur, þar sem við erum að þvo lín fyrir hótel og öldrunarheimili," segir Þorvarður Helgason, verkstjóri hjá Fönn.

„Við munum rísa úr öskunni fljótt“

Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Pennans, sem á og rekur verslunina Griffil, gengur út frá því að allt sé farið sem þar sé innandyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×