Enski boltinn

Frank Lampard: Mun taka ákvörðun bráðlega

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vísir/Getty
Frank Lampard, fyrrverandi miðjumaður Chelsea, hefur sagt að hann muni gera upp hug sinn fljótlega varðandi hvaða liði hann mun spila með á næstu leiktíð.

Þrettán ára vera Lampard hjá Chelsea er á enda, en hann hefur skorað 211 mörk í öllum keppnum, sem gerir hann að markahæsta leikmanni í sögu félagsins.

Lampard hefur mikið verið orðaður við New York City í MLS-deildinni, en David Villa, framherjinn knái, gekk í raðir liðsins á dögunum.

„Á þessum tímapunkti er ég með nokkra möguleika. Ég mun gera upp hug minn bráðlega," sagði Lampard við Sky Sports.

Lampard er ekki enn búinn að ákveða hvort hann ætli að spila áfram með enska landsliðinu.

„Auðvitað væri ég til í að spila fyrir England aftur, en maður getur ekki spilað að eilífu. Ég hef notið hverrar mínútu með landsliðinu, en við sjáum til."

„Það mun verða erfið ákvörðun, en mig hefði ekki getað dreymt um svona feril fyrir enska landsliðið svo ég verð alltaf ánægður með ákvörðunina sem ég tek," sagði Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×