Innlent

Segja fagnaðarefni að alþjóðlegar verslunarkeðjur hefji hér starfsemi

Ungir sjálfstæðismenn senda frá sér ályktun í tengslum við Costco málið.
Ungir sjálfstæðismenn senda frá sér ályktun í tengslum við Costco málið.
Ungir sjálfstæðismenn hafa sent frá sér ályktun þar sem kemur fram að þeir telji aukið frjálsræði í verslun og viðskiptum bestu leiðina til að bæta lífskjör fólks.

„Ráðagerð alþjóðlegrar verslunarkeðju um að hefja starfsemi hér á landi er fagnaðarefni og líkleg, ef af verður, til þess að auka samkeppni á því sviði, lækka vöruverð og fjölga valkostum neytenda. En á sama tíma er ljósi varpað á hversu miklar takmarkanir eru enn á verslun og viðskipti með sjálfsagaðar dagvörur,“ segir í ályktuninni.

Fulltrúar frá bandaríska smásölurisanum Costco hafa verið hér á landi undanfarna daga en fyrirtækið hefur áhuga á að reisa verslun hér á landi. Costco hefur einnig áhuga á að hefja rekstur bensínstöðva, svokallaðra fjölorkustöðva, sem munu selja bensín, rafmagn og jafnvel metan.

Fram kemur í ályktuninni að brýnt sé að ráðast í breytingar á áfengislöggjöfinni, sem og að draga úr innflutningshömlum og fella niður tolla íslenskum neytendum til hagsbóta.

„Skorað er á ráðherra og alþingismenn Sjálfstæðisflokksins að beita sér þegar fyrir slíkum lagabótum. Ungir sjálfstæðismenn harma þá forræðishyggju er kom fram í orðum þingflokksformanns Framsóknarflokksins í fréttum Stöðvar 2. Slík ummæli geta aldrei endurspeglað stefnu stjórnarmeirihlutans eða ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkur er aðili að.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×