Viðskipti innlent

Bjarni vill bæta umhverfi verslunar með auknu frelsi í vöruframboði

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. vísir/pjetur
Fjármála- og efnahagsráðherra er hlynntur því að bæta umhverfi smásöluverslana í landinu og auka frelsi í vöruframboði þeirra. Hann segir að slíkar breytingar verði alltaf gerðar með almennum hætti en ekki aðeins til að greiða götu bandaríska fyrirtækisins Costco hér á landi. 

Bandaríski smásölurisinn Costco hefur áhuga á að opna verslanir hér á landi og vill fá að flytja inn ferskt kjöt og selja bæði lyf og áfengi í verslunum sínum eins og það gerir annars staðar þar sem það starfar.

Álitaefni um sölu áfengis og lyfsölu

Ljóst er að ef þessi áform eiga að ná fram að ganga þarf að breyta lögum. Afnema þarf einkasölu ríksins á áfengi og heimila öðrum en apótekum að selja lyf í smásölu. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segist fagna áformum Costco.

Íslensk stjórnvöld hafa margsinnis greitt götu erlendra fyrirtækja vegna beinnar fjárfestingar þeirra hér á landi, einkum í stóriðju. Bjarni segir að breytingar á regluverki smásölufyrirtækja verði alltaf verða gerðar með almennum hætti en ekki aðeins til að liðka fyrir einu fyrirtæki.

„Það hafa komið til umræðu nokkur svona klassísk álitaefni eins og hvernig við viljum haga sölu á áfengi og lyfsölu en við ræðum þau alltaf í víðara samhengi en ekki í tengslum við áhuga einstakra aðila,“ segir Bjarni. 

Eru uppi áform um breytingar sem myndu liðka fyrir sölu með þessar vörur almennt, en ekki bara hjá Costco? „Mér finnst að það eigi að vera til skoðunar. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við getum bætt mjög umhverfi verslunar í landinu með því að auka frelsi á sviðum eins og þessum. Það hefur engum dulist sem hefur fylgst með mínum stjórnmálaskoðunum í langan tíma. Við erum hins vegar ekki að vinna markvisst að því í augnablikinu en hver veit hvað kemur á dagskrá næst.“ 


Tengdar fréttir

Tilboð um heilbrigða samkeppni

Bandaríski smásölurisinn Costco hefur áhuga á að opna verzlun hér á landi, eins og fjölmiðlar hafa sagt frá undanfarna daga. Sögunni fylgir að Costco vilji líka fá að byggja fjölorkustöð og biðji um undanþágur frá ýmsum íslenzkum lögum og reglum.

Costco skrefinu nær með orkusöluleyfi

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir orkusölu Costco með skilyrðum. Samtök verslunar og þjónustu fagna því ef frjálsræði eykst í verslun með innflutningi á kjöti og áfengissölu í verslunum.

Allir skulu sitja við sama borð

Formaður Samtaka Iðnaðarins furðar sig á skyndilegum áhuga íslenskra stjórnvalda á umturnun íslensks rekstrarumhverfis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×