Innlent

Kalla eftir reynslusögum af fóstureyðingum

ingvar haraldsson skrifar
Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir segja fóstureyðingar vera ákveðið tabú í samfélaginu.
Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir segja fóstureyðingar vera ákveðið tabú í samfélaginu. vísir/gva/hörður
Stjórnmálafræðingurinn Silja Bára Ómarsdóttir og kynjafræðingurinn Steinunn Rögnvaldsdóttir hyggja á útgáfu bókar þar sem konur deila reynslusögum af fóstureyðingum.

Silja segir um þúsund konur á ári fara í fóstureyðingu en umræðan um fóstureyðingar sé ekki mikil. „Þetta er umræða sem heyrist eiginlega aldrei. Miðað við þann fjölda kvenna sem ganga í gegnum þessa reynslu er ótrúlega lítið til af upplýsingum sem hægt er að nálgast um hverju þú megir eiga von á þegar þú stendur frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort þú viljir láta stöðva meðgöngu. Það eru til klínískar og tæknilegar upplýsingar en lítið af upplýsingum um lífsreynsluna við að ganga í gegnum fóstureyðingu.“

Silja og Steinunn settu pistill inn í vefsíðuna knuz.is þar sem þær kölluðu eftir reynslusögum kvenna og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. „Það hafa fjörtíu konur verið í sambandi við okkur. Þær segja þó næstum allar að þær hafi rætt sínar fóstureyðingar við fáa.“

Að sögn Silju eru sögurnar eins misjafnar eins og þær eru margar: „Við erum að fá sögur sem eru átakanlega og svo erum við að fá sögur sem segja að þetta hafi verið mjög einfalt. Það er svo ótrúlegt að hver einasta kona þurfi að taka ókvörðun í óvissa miðað við hve margar konur hafa gengið í gegnum þessa lífsreynslu.“

Þær konur sem vilja hafa samband við Silju og Steinunni geta sent póst á sögurkvenna@gmail.com en fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×