Erlent

Tugir þúsunda fylgdu piltunum til grafar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Tugir þúsunda Ísraela fylgdu í dag þremur piltum sem fundust myrtir í gær til grafar á Vesturbakkanum. Þeim hafði verið rænt tveimur vikum áður og yfirvöld í Ísrael saka Hamas samtökin um morðið.

Fjölmargir hafa kallað eftir hefndaraðgerðum gegn Hamas, en AP fréttaveitan segir loftárásir hafa verið gerðar á tugum staða þar sem meðlimir samtakana eru taldir koma saman.

Þá skutu ísraelskir hermenn palestínskan 20 ára gamlan mann til bana nálægt bænum þar sem piltunum var rænt. Yfirvöld í Ísrael segja hann hafa kastað handsprengju að hermönnum, en fjölskylda hans segir hann hafa verið á leið heim til sín með egg.

Hamas samtökin hafa lofað morðin en hafa hvorki neitað né staðfest að meðlimir þeirra hafi átt hlut að máli.

Yfirvöld í Ísrael hafa ekki gefið upp miklar upplýsingar um ránið á piltunum, en fjölmiðlar þar í landi birtu í dag hljóðupptöku af því þegar einn piltanna hringdi í lögreglu eftir ránið.

„Þeir rændu mér,“ heyrðist einn þeirra segja og svo er kallað á hann og honum sagt horfa niður.

Upprunalega héldu starfsmenn neyðarlínunnar að um gabb væri að ræða svo leit tafðist um nokkrar klukkustundir.

Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×