Enski boltinn

Keane ráðinn aðstoðarþjálfari Aston Villa

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Roy Keane er aðstoðarþjálfari Martin O'Neill hjá írska landsliðinu.
Roy Keane er aðstoðarþjálfari Martin O'Neill hjá írska landsliðinu. Vísir/Getty
Roy Keane var í dag ráðinn aðstoðarþjálfari Paul Lambert hjá Aston Villa en hann mun sinna því ásamt því að vera aðstoðarþjálfari írska landsliðsins.

Þetta var staðfest fyrr í dag en Keane hefur störf þegar leikmenn Aston Villa snúa aftur til æfinga eftir sumarfrí á mánudaginn. Hinn írski Keane hefur áður verið við stjórnvölinn hjá Ipswich og Sunderland.

Lambert var gríðarlega ánægður að fá Keane inn í starfsteymi sitt eftir að Ian Culverhouse sem sinnti stöðu aðstoðarþjálfara á síðasta tímabili var rekinn í vor fyrir agabrot.

„Roy kemur með mikla reynslu bæði sem leikmaður og sem þjálfari og ég er viss um að hann muni reynast félaginu gríðarlegur styrkur. Ég er mjög ánægður að hann tók tilboðinu og hlakka til að vinna með honum í framhaldinu,“ sagði Lambert sem mætti Keane á vellinum á sínum tíma og veit fyrir hvað hann stendur.

„Við lékum aldrei saman en ég mætti honum inn á vellinum og hann var andstæðingur sem ég bar mikla virðingu fyrir enda var hann einn af bestu leikmönnum deildarinnar. Hann lék undir mörgum af bestu stjórum sögunnar í fótbolta og getur vonandi miðlað af reynslu sinni á næstu mánuðum,“ sagði Lambert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×