Innlent

Bandaríska sendiráðið flytur: „Þau hafa verið ágætir nágrannar“

Bjarki Ármannsson skrifar
Erlingur segir starfsmenn sendráðsins góða nágranna.
Erlingur segir starfsmenn sendráðsins góða nágranna. Vísir/Vilhelm/Stefán
„Við hjónin höfum átt ágætt samband við þá þarna hinum megin,“ segir Erlingur Gíslason leikari. „Þeir eru, eins og Ameríkanar eru alltaf, alveg óskaplega góðir nágrannar.“

Erlingur býr við Laufásveg, þaðan sem bandaríska sendiráðið á Íslandi hyggst flytja á brott á næstunni. Hann segir sambúðina hafa að mestu leyti gengið vel, en Erlingur var meðal þeirra sem lýstu yfir óánægju sinni þegar steinkerum var komið fyrir fyrir framan sendiráðið í öryggisskyni árið 2004.

„Þau hafa verið ágætir nágrannar, nema þegar þeim datt í hug að setja steinkerin við götuna,“ segir Erlingur. „Það er nú það eina sem hefur pirrað mig við þá.“

Einnig hefur komið fram að Erlingur telur Bandaríkjamenn hafa hlerað heimili hans en hann tekur það þó ekki mjög nærri sér.

„Þeir væru ekki í vinnunni sinni ef þeir hleruðu ekki allstaðar,“ segir hann. „Og þetta samtal okkar fer áreiðanlega inn á band hjá þeim og ég bara vorkenni þeim sem þarf að hlusta á þetta. En ég sakna þess helst að við höfum ekki njósnastofnun til að njósna um þá. Það er eiginlega það sem vantar.“

Erlingur segist ekki þekkja til þess hvort aðrir íbúar Laufásvegs muni sakna þess að búa með sendiráðinu.

„Þú veist nú hvernig Íslendingar eru, þeir hittast á sömu götu í tuttugu ár áður en þeir bjóða góðan daginn. Þetta er mjög ólíkt Ameríkönum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×