Innlent

Til skoðunar að flytja fleiri stofnanir út á land

VISIR/DANIEL
Sú ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar hefur vakið mikla athygli. Deilt hefur verið um lagagrundvöll ákvörðunarinnar og þá hafa nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt hana.

Líklegt þykir að 35 störf muni flytjast norður á land en um 70 manns starfa hjá Fiskistofu. Greint hefur verið frá því að fáir starfsmenn muni koma til með að flytja með stofnuninni til Akureyrar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir það ekki áhyggjuefni. Starfsmannavelta hafi verið mikil hjá Fiskistofu og þá séu um 30 nemendur í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri. Það verði því ekki erfitt fyrir stofnunina að finna starfsfólk á Akureyri.

„Þetta gerist yfir ákveðinn tíma. Einhverjir komast á aldur, einhverjir hefðu hætt hvort eð er, eins og þessi mikla starfsmannavelta undanfarinnar ára gefur til kynna. Svoleiðis að þetta getur átt sér stað að miklu leyti með eðlilegri endurnýjun,“ segir Sigmundur Davíð.

Sigmundur segir það athyglisvert hversu mikla athygli það veki þegar opinber störf eru flutt út á land, en það veki mun minni athygli þegar þau eru flutt á höfuðborgarsvæðið. Hann útilokar ekki að fleiri opinberar stofnanir verði fluttar út á land.

„Það er auðvitað til skoðunar í ýmsum ráðuneytum að færa stofnanir eða breyta stofnunum. Menn hafa verið að skoða ýmsar sameiningar til dæmis. Það er óhjákvæmilegt að fara í gegnum þetta allt saman, því við þurfum að sýna aðhald og spara, greiða niður skuldir ríkisins,“ segir Sigmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×