Enski boltinn

Cabella samdi við Newcastle til sex ára

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Newcastle gekk í gær frá kaupunum á sóknarsinnaða miðjumanninum Remy Cabella frá Montpellier. Cabella sem er franskur landsliðsmaður skrifaði undir sex ára samning.

Talið er að Newcastle hafi greitt Montpellier 12 milljónir punda fyrir þjónustu Cabella sem hefur verið í herbúðum Montpellier frá fjórtán ára aldri. Newcastle hefur verið á höttunum eftir Cabella í þónokkurn tíma en Montpellier hefur ekki verið tilbúið að selja leikmanninn fram að þessu.

„Ég er virkilega spenntur fyrir því að leika með Newcastle. Það tala allir gríðarlega vel um klúbbinn sem ég talaði við og ég vildi fara til Englands til að taka næsta skref. Ég er gríðarlega ánægður að þessu sé lokið og hlakka til að hefja leik,“ sagði Cabella eftir að hafa skrifað undir samninginn.

Cabella er fjórði leikmaðurinn sem kemur inn um dyrnar á St. James Park á eftir Siem De Jong, Jack Colback og Ayoze Perez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×