Erlent

Landhernaður Ísraela hafinn

Atli Ísleifsson skrifar
Að sögn talsmanns Sameinuðu þjóðanna hafa 17 þúsund manns leitað skjóls í neyðarskýlum, en loftárásir Ísraelshers standa nú yfir sjötta daginn í röð.
Að sögn talsmanns Sameinuðu þjóðanna hafa 17 þúsund manns leitað skjóls í neyðarskýlum, en loftárásir Ísraelshers standa nú yfir sjötta daginn í röð. Vísir/AFP
Þúsundir Palestínumanna flýja nú norðurhluta Gaza-strandarinnar eftir að Ísraelsstjórn varaði við að herinn myndi ráðast gegn stöðum á svæðinu í tilraun til að stöðva eldflaugaárásir á landið.

Að sögn talsmanns Sameinuðu þjóðanna hafa 17 þúsund manns leitað skjóls í neyðarskýlum, en loftárásir Ísraelshers standa nú yfir sjötta daginn í röð.

Á vef BBC segir að ísraelskar hersveitir hafi gert áhlaup á eldflaugaskotpalla í norðurhluta Gaza í að því er virðist fyrstu landhernaðaraðgerð hersins í þessari hernaðarlotu.

Að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gaza hafa 159 Palestínumenn látist frá því að loftárásir Ísraelsmanna hófust á þriðjudag. Meðal hinna látnu eru sautján meðlimir sömu fjölskyldunnar sem létust í loftárás á laugardagskvöld.

Ísraelsstjórn segist ráðast gegn herskáum Hamas-liðum og stöðum þar sem hryðjuverk eru skipulögð, þar á meðal heimili háttsettra og herskárra Hamas-liða. Sameinuðu þjóðirnar áætla hins vegar að 77 prósent hinna fallinna hafi verið óbreyttir borgarar.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafa hvatt til vopnahlés og að friðarviðræður verði teknar upp að nýju þegar í stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×