Innlent

Mannorð í molum eftir húsleit og handtöku

Lögmaður tveggja manna sem hafa ákveðið að höfð mál gegn íslenska ríkinu vegna tilefnislausrar handtöku og húsleitar, segir að lífi þeirra eins og þeir þekktu það hafi lokið þann dag sem lögreglan handtók þá fyrir framan vinnufélaga sína. Mennirnir séu atvinnulausir og mannorð þeirra í molum.

Þrír menn voru með réttarstöðu sakbornings í málinu en einn þeirra er sagður hafa notfært sér aðgang sinn að upplýsingakerfi lögreglunnar. Meðal annars til að grafast fyrir um fórnarlömb kynferðisofbeldis.

Hann og tveir aðrir menn voru handteknir í tengslum við málið. Lögreglumaðurinn var sakaður um að hafa deilt upplýsingunum með þeim.

Hinir tveir mennirnir, lögmaður og starfsmaður fjarskiptafyrirtækis fengu fyrir stuttu bréf frá ríkissaksóknara, þar sem þeim var tilkynnt að málið yrði fellt niður.

„Mér fannst aðfarir lögreglu vera mjög miklar og án fordæma í svipuðum málum. Eðli málsins samkvæmt eru lögreglumenn kærðir af borgaranum yfir störfum sínum. Það er nú bara þannig í réttarríki að geri lögreglan mistök og handtaki saklausa menn á að bæta það,“ segir Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður mannanna.

Hann segir lögregluna á Suðurnesjum hafa fylgst með samskiptum mannanna á Facebook sex mánuðum áður en þeir voru handteknir. Hann hafi þó ekki fengið skýringar hvernig á því standi.

Hvaða áhrif hefur þetta haft á þína skjólstæðinga?

„Líf þeirra eins og þeir þekktu, þeim lauk náttúrulega þegar þeir voru handteknir opinberlega og hent í fangaklefa. Þeir eru ekki í þeim vinnum sem þeir voru og eru báðir atvinnulausir í dag. Mannorð þeirra er í molum. Allir sem þekkja þá eru hvísla sín á milli, hver ástæða þess gæti verið að þeir voru handteknir. Það hefur í raun og veru lítið þýtt fyrir þá að segja af hverju þetta byrjaði.“

„Þeir eru í raun að byrja núna að endurbyggja líf sitt,“ segir Garðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×