Enski boltinn

Verð stuðningsmaður Liverpool að eilífu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Luis Suárez þakkaði stuðningsmönnum Liverpool fyrir tíma sinn hjá félaginu á heimasíðu Liverpool í dag eftir að félagið samþykkti tilboð Barcelona.

Suárez hefur átt stormasöm ár hjá Liverpool en stuðningsmenn liðsins stóðu með Suárez í gegnum súrt og sætt.

„Ég vona að þið skiljið öll ákvörðun mína. Félagið gerði allt sem það gat gert til þess að reyna að halda mér. Að spila og búa á Spáni þar sem fjölskylda mín á heima, er draumur sem ég hef átt allt mitt líf. Ég tel að nú sé rétti tíminn.“

„Ég er mjög stoltur af því að hafa átt þátt í að hjálpa Liverpool að komast aftur á meðal bestu liðanna í ensku úrvalsdeildinni og komast aftur í Meistaradeildina.“

„Fyrst og fremst hef ég orðið ástfanginn af þessum ótrúlegu stuðningsmönnum. Þið hafið alltaf sýnt mér og fjölskyldu minni stuðning sem við munum aldrei gleyma og við verðum alltaf stuðningsmenn Liverpool.“

„Ég óska Brendan Rodgers og liðinu alls hins besta í framtíðinni. Félagið er í frábærum höndum og ég er viss um að því mun ganga vel aftur á næsta tímabili“

„Takk aftur fyrir frábærar minningar og að lokum You'll Never Walk Alone,“ segir í tilkynningu Suárez á opinberri heimasíðu Liverpool.




Tengdar fréttir

Tilboð Barcelona í Suárez samþykkt

Liverpool staðfesti rétt í þessu að félagið hefði samþykkt tilboð Barcelona í Luis Suárez. Suárez sem er 27 ára hefur samþykkt undir fimm ára samning hjá Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×