Innlent

Fönn þakkar slökkviliðsmönnum

Randver Kári Randversson skrifar
Frá vettvangi brunans síðastliðinn sunnudag.
Frá vettvangi brunans síðastliðinn sunnudag. Vísir/Andri
Þvottahúsið Fönn er nú þegar byrjað að þjónusta viðskiptavini sína þrátt fyrir áfallið sem fyrirtækið varð fyrir í brunanum í Skeifunni síðastliðinn sunnudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fönn. 

Þar segir að ákveðið hafi verið að halda áfram að þvo og hreinsa, og fyrirtækið hafi þegar gert ráðstafanir sem gera því kleift að þjónusta viðskiptavini sína áfram. Á næstu dögum og vikum verður haft sambandi við alla þá sem áttu hjá Fönn þvott er bruninn varð.

Einnig er í tilkynningunni komið á framfæri þakklæti í garð þeirra slökkviliðsmönnum sem börðust við eldinn.

„Þvottahúsið Fönn vill þakka innilega þeim slökkviliðsmönnum sem lögðu sjálfa sig í stórhættu við að bjarga því sem bjargað varð í stórbrunanum í Skeifunni um síðastliðna helgi. Sérstaklega var það mikil upplifun fyrir okkur að sjá í návígi hugrekkið sem slökkviliðsmenn sýndu  í viðureigninni við eldhafið.  Það gleymist aldrei,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×