Enski boltinn

Dýrasti táningur Bretlands ekki í formi og látinn æfa einn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal ræðir við Luke Shaw í Washington.
Louis van Gaal ræðir við Luke Shaw í Washington. vísir/getty
Luke Shaw, bakvörðurinn sem Manchester United keypti frá Southampton fyrir 28 milljónir punda fyrr í sumar, er ekki í nægilega góðu líkamlegu formi að mati knattspyrnustjóra liðsins, Louis van Gaal.

Þessi 19 ára gamli leikmaður, sem varð um leið dýrasti táningur Bretlands þegar United keypti hann, var látinn æfa einn með þrekþjálfara liðsins í Washington í gær.

„Það er í lagi með Shaw, en ég er þjálfari sem bendi einstaklingum á hvað þeir þurfa að bæta. Hann þarf að vera í betra formi. Hann er ekki í nógu góðu formi til að gera það sem ég ætlast til af honum,“ sagði Van Gaal í gær.

Hollendingurinn upplýsti það á blaðamannafundi að Wilfried Zaha spilar sinn fyrsta leik undir hans stjórn í kvöld þegar United mætir Inter í ICC-æfingamótinu.

Hann mun spila í stöðu framherja í seinni hálfleik í 3-5-2 kerfinu. „Ég get ekki notað hann í annarri stöðu í þessu kerfi þannig hann verður að venjast því,“ sagði Van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×