Innlent

Veruleg hætta á skriðuföllum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Enn er hætta á frekari skriðuföllum við Öskju, en skriðan sem féll á þeim slóðum síðastliðinn mánudag er ein sú stærsta sem vitað er um hér á landi að mati vísindamanna. 

Veruleg hætta er á skriðuföllum úr brúnum Dyngjufjalla við Öskjuvatn, en ekki sáust ummerki um að sambærilegt hrun sé þar yfirvofandi sem orsakað gæti álíka flóðbylgju og myndaðist á mánudag. Þetta kemur fram í frumniðurstöðum rannsókna vísindamanna sem birtar eru á vef almannavarna.

Þá er mikil hætta á frekari skriðuföllum í næsta nágrenni við Öskju og má ætla að sú hætta vari í að minnsta kosti ár. Þá er jafnframt varað við öllum mannaferðum á því svæði. Að viku liðinni er gert ráð fyrir að skriðuhætta í Öskju, utan framhlaupsins sjálfs, verði svipuð og áður var. Umferð verður því takmörkuð innan öskjunnar líkt og hefur verið undanfarna daga fram í næstu viku.

Skriðan sem féll í Öskjuvatn er ein sú stærsta sem vitað er um hér á landi og er brotsárið yfir 700 metra langt og heildarrúmmál skriðunnar um fimmtíu milljónir rúmmetra. Sérfræðingar Veðurstofunnar og Háskóla Íslands fóru yfir mælingar sínar á svæðinu á fundi vísindamannaráðs almannavarnar í morgun.

Myndir og myndband er birt með góðfúslegu leyfi Kristjáns Inga Einarssonar.

mynd/kristján ingi einarsson
mynd/kristján ingi einarsson
mynd/kristján ingi einarsson
mynd/kristján ingi einarsson
Myndband: Kristinn Ingi Pétursson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×