Norska öryggislögreglan segist búa yfir vísbendingum um að hópur fólks hafi ferðast til Vesturlanda frá Sýrlandi með það í huga að fremja hryðjuverk. Nefnir lögreglan Noreg sérstaklega sem mögulegt skotmark þeirra.
„Við erum að vinna í því að staðfesta þessar upplýsingar,“ segir Jon Fitje Hoffmann, greiningarstjóri lögreglunnar í samtali við sjónvarpsstöðina TV 2. Hann segir ekki vitað hvar hópurinn er núna.
Aukinn viðbúnaður hefur verið í Noregi frá því í gær þegar yfirvöld greindu frá því að þeir hefðu upplýsingar þess efnis að til stæði að gera hryðjuverkaárás á landið á næstu dögum. Til stendur að ákveða í dag hvort öryggisráðstafanir lögreglu verði hertar enn frekar.
Upplýsingar um mögulega árás hafa náð miklu flugi á samfélagsmiðlum en öryggislögreglan varar við því að taka öllu trúanlegu sem fólk sér á netinu.
