Nokkur hundruð Palestínumenn höfðu leitað skjóls í skólanum undan árásum Ísraelshers. Þetta er í fjórða sinn sem aðstaða á vegum Sameinuðu þjóðanna verður fyrir árás Ísraela.
Um 140 þúsund Palestínumenn hafa flúið heimili sín vegna innrásar Ísraelshers á Gaza og hefur mikill fjöldi þeirra leitað skjóls í byggingum sem reknar eru af Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna.
Á vef Sky News er haft eftir talsmanni flóttamannahjálparinnar að Ísraelsher hafi fengið gefna upp nákvæma staðsetningu skólans. Reynt hafi verið að semja við herinn um að óbreyttir borgarar fengju tíma til að yfirgefa skólann en það hafi ekki verið veitt.




