Herforingi innan Hamas hefur vísað á bug öllu tali þess efnis að Palestínskir hermenn séu fáanlegir til að leggja niður vopn í átökum við Ísrael, ef það megi verða til að stöðva blóðbaðið í Gasa.
Mohammad Deif, yfirmaður í herskáum armi Hamas, sagði í útvarpsviðtali að menn hans væru þess albúnir að ganga í opinn dauðann í þeim átökum sem nú standa yfir á Gasasvæðinu.
Átökin héldu áfram af fullum krafti í nótt og í morgun og féllu 32 Palestínumenn í skotárásum Ísraelsmanna. Þetta kemur fram á BBC og er haft eftir heilbrigðisyfirvöldum á Gasasvæðinu.
Að minnsta kosti 1.200 palestínumanna hafa nú verið drepnir og 55 Ísraelsmenn síðan átökin brutust út 8. júlí. Snemma í morgun hófst skotárás á skóla Sameinuðu þjóðanna á Gasa, í flóttamannabúðum og létust þar að minnsta kosti 16. Þetta er að sögn yfirvalda í Palestínu. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna staðfesti að árásin var gerð en sagði tölu fallinna lægri. Þannig geta fregnir af svæðinu reynst misvísandi.
Flestir Palestínumanna sem fallið hafa eru óbreyttir borgarar og þá hafa tæplega 7 þúsund særst, ef marka má heilbrigðisyfirvöld á Gasa.
Erlent