Erlent

Kúrdar farnir að láta undan gegn IS

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Forsvarsmenn sjálfstjórnarsvæðis Kúrda í Írak hafa um árabil beðið stjórnvöld í Bandaríkjunum um að selja sér vopn. Beiðnum þar um hefur alltaf verið hafnað þar sem Bandaríkjamenn segjast eingöngu geta selt vopn til yfirvalda í Bagdad.

Vígamenn IS samtakanna hafa unnið sigra gegn léttvopnuðum sveitum Kúrda í norðurhluta Írak á síðustu dögum. Í átökunum hafa þeir notast við mikið af vopnum og búnaði frá Bandaríkjunum. Íraski herinn hafði skilið vopnin eftir þegar hann flúði undan sókn IS.

AP fréttaveitan segir vígamennina nú ógna Irbil, höfuðborg sjálfstjórnarsvæðisins. Bandaríkin sendu 300 hernaðarráðgjafa til Írak í júní, en margir þerra halda til í Irbil.

Bandaríkin hafa gert nokkrar loftárásir gegn IS á síðustu tveimur dögum, til að reyna að stöðva sókn þeirra gegn Kúrdum. Embættismenn sjálfstjórnarsvæðisins segja einnig að Bandaríkin hafi nú lofað að senda þeim vopn.

Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum segjast þó eingöngu útvega stjórnvöldum Írak vopn.

Það hefur vakið upp þá spurningu hvort leyniþjónusta Bandaríkjanna sé leynilega að útvega Kúrdum vopn, en embættismenn í Bandaríkjunum vilja hvorki staðfesta það né neita. CIA neitaði að tjá sig um málið þegar AP leitaði svara.

Þá hafa þær raddir sem vilja að Bandaríkin sjái Kúrdum fyrir vopnum orðið háværari á síðustu dögum.

„Ef yfirvöld í Bagdad eru ekki að sjá Kúrdum fyrir þeim vopnum sem þeir þurfa, ættum við að gera það sjálfir,“ segir þingmaðurinn Adam Schiff.

Hershöfðinginn Michael Barbero, sem áður stjórnaði þjálfun íraska hersins, segir að eina leiðin til að stöðva sókn IS sé að vopna öryggisveitir í Írak og Kúrda. Samt séu Bandaríkin ekki að gera neitt til að styðja báða þessa aðila.

Yfirvöld í Bagdad áttu á sínum tíma að útvega Kúrdum töluvert af vopnum sem komu frá Bandaríkjunum, en þau voru aldrei send til þeirra. Kúrda hefur lengi dreymt um að stofna sjálfstætt ríki og yfirvöld í Bagdad hafa ekki viljað gefa þeim of lausan taum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×