Erlent

Obama íhugar beitingu loftárása gegn íslamistum í Írak

Atli Ísleifsson skrifar
Talsmaður Bandaríkjaforseta sagði "mannúðlegt stórslys“ vera í uppsiglingu í Írak.
Talsmaður Bandaríkjaforseta sagði "mannúðlegt stórslys“ vera í uppsiglingu í Írak. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti íhugar nú beitingu loftárása til að stemma stigu við sókn íslamistasamtakanna IS í Írak. Samtökin gengu áður undir nefninu ISIS.

Sa
mtökin hafa náð tökum á fjölda borga í norðurhluta Íraks og Sýrlandi og lýst yfir stofnun sérstaks íslamsks ríkis.

Á vef sænska ríkissjónvarpsins segir að komi til þátttöku Bandaríkjahers, sé líklegt að sú þátttaka muni ekki einungis snúast um að ráðast á hernaðarlega mikilvæg skotmörk, heldur einnig að koma nauðþurftum til fólks sem hefur þurft að flýja til Sinjar-fjalla í norðurhluta Íraks vegna framgöngu IS-liða. Þetta er haft eftir heimildarmönnum New York Times.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi fyrr í kvöld árásir IS-liða á trúarlega minnihlutahópa í Írak, en boðað var til neyðarfundar vegna ástandsins í Írak fyrr í dag. Höfðu þá borist fréttir af því að IS-liðar höfðu náð tökum á bænum Qaraqosh þar sem fjöldi kristinna hafast við og ítök eru meiri en víðast hvar annars staðar í landinu.

Francois Hollande Frakklandsforseti hefur boðist til að veita þeim öflum sem berjast gegn IS í Írak liðsinni Frakka. Komu skilaboðin í kjölfar samtals Hollande og Massoud Barzani, forseta heimastjórnar Kúrda í norðurhluta Íraks.

Liðsmenn IS hafa sótt mikið fram að undanförnu, fyrst og fremst í norðvesturhluta Íraks þar sem þeir hafa náð Mosul, næststærstu borg landsins, á sitt vald.

Stjórn IS-samtakanna byggir á mjög íhaldssamri túlkun á íslam sem hefur nú leitt til þess að 200 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín síðustu daga.

Obama hefur áður útilokað að senda bandaríska hermenn til Íraks og að sögn Josh Earnes, talsmanns Obama, þá heldur forsetinn fast í þá skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×