Innlent

Ljós krabbakönguló á Vesturlandi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá hina ljósu krabbakönguló.
Hér má sjá hina ljósu krabbakönguló.
Íbúi á vesturlandi tók mynd af ljósri krabbakönguló sem er á stærð við krónupening. Ljóst yfirbragð köngulóarinnar vekur óneitanlega athygli. 

Að sögn Erlings Ólafssonar, dýrafræðings hjá Náttúrustofnun Íslands, er krabbaköngulóin nokkuð algeng á láglendi víða um land. 

„Krabbaköngulær vefa ekki vefi til að fanga bráð heldur sitja þær um bráðina í blómum og hremma með snöggum „handtökum" og bíta á háls. Eitrið er skjótvirkt og lamar á augabragði. Þess vegna nær köngulóin oft að fanga bráð sem er miklu stærri en hún sjálf, til dæmis stór yglufiðrildi. Eins og þú sérð á myndinni minnir köngulóin þessi óneitanlega á krabba í sköpulagi og er auk þess eins og þeir margir hverjir jafnvíg á að færast til allra átta," segir Erling.

Á vef Náttúrufræðistofnunar kemur fram að krabbaköngulóna má meðal annars finna um gjörvalla Evrópu, í Asíu og norðurhluta Afríku. Þar segir:

„Eftir mökun þykir kvendýrinu makinn kræsileg máltíð en karlinn hefur komist upp á lag með að tjóðra kerluna með vef sínum til að freista þess að halda henni í skefjum eftir að mökun lýkur. Fullorðnar krabbaköngulær leggjast í vetrardvala.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×