Erlent

Vopnahlé á Gasa heldur áfram

Samúel Karl Ólason skrifar
Palestínsk fjölskylda keyrir hjá eyðilögðum heimilum með eigur sínar.
Palestínsk fjölskylda keyrir hjá eyðilögðum heimilum með eigur sínar. Vísir/AP
Vopnahlé á milli Hamas-samtakanna og Ísraelshers, sem batt enda á mánaðarlangt stríð á Gasasvæðinu, hefur enn ekki verið rofið. Nú hefur það staðið yfir í tvo daga. Sendinefndir Ísraels og Palestínu eru nú i Kaíró í Egyptalandi, til viðræðna um langvarandi friðarsamkomulag.

AP fréttaveitan segir að næstu daga muni sáttasemjarar Egypta reyna að sætta sendinefndir Palestínumanna og Ísraela. Sendinefnd Palestínumanna er sögð skipuð aðilum úr öllum áhrifahópum í Palestínu, þar á meðal Hamas-samtakanna. Ekki hefur verið gefið út hverjir skipi sendinefnd Ísraela.

Talið er að Hamas muni meðal annars fara fram á alþjóðlega fjármögnun endurbyggingar Gasasvæðisins, sem yrði í umsjón palestínskra stjórnvalda sem leidd yrðu af Mahmoud Abbas, forseta heimastjórnar Palestínu.

Nærri því 1.900 Palestínumenn hafa fallið í stríðinu og 67 Ísraelar, þar af þrír borgarar. Þetta er lengsta hlé á átökum síðan stríðið hófst þann 8. júlí.

Íbúar Gasa hafa snúið aftur til heimila sinna, sem mörg hver eru í rúst, síðan vopnahléið tók gildi. Þá hafa bílar og asnar hlaðnir heimilisvörum, birgðum og mat verið áberandi á götum borgarinnar. Langar raðir mynduðust við banka þar sem fólk beið eftir því að geta tekið út peninga.

Smiðurinn Mahmoud Al Maghani ræddi við fréttaritara AP eftir að hann sneri aftur til að skoða verkstæði sitt.

„Ég held að verkstæðið hafi verið hér, en í sannleika sagt get ég ekki verið viss. Ég kom í gær og það eina sem ég fann var rústir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×