Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, njóti stuðnings hans í embætti innanríkisráðherra. Hann segir málið þó viðkvæmt og að Hanna Birna sé í óþægilegri stöðu.
Bjarni segir að enginn ætti að efast um að Hanna Birna njóti hans stuðnings.
„Þeir sem sitja í ríkisstjórn gera það í skjóli umboðs og fulls trausts og það á við um innanríkisráðherra eins og aðra ráðherra,“ segir Bjarni.
Finnstþér aðHanna Birna hefðiátt aðtaka einhvernveginnöðruvísiáþessu máli en hún hefur gert frá þvíað þaðkom fyrst uppíjanúar?
„Það er ekki gott að segja hvort það hefði mátt takmarka umræðuna um það með hvaða hætti samskipti ráðuneytisins og þeirra sem að rannsókninni standa hefði átt að vera eða bregðast einhvernveginn öðruvísi við,“ segir Bjarni.
Bjarni segir jafnframt að mestu máli skipti að ráðuneytið hafi veitt lögreglunni aðgang að öllum þeim gögnum og upplýsingum sem máli skipta fyrir rannsóknina. Það telur að hann hafi verið gert.
En er það ekki í besta falli óeðlilegt að innanríkisráðherra ræði við undirmann sinn, lögreglustjórann, um yfirstandandi rannsókn sem snýr að ráðuneyti hennar?
„Það er alveg skiljanlegt að menn velti því fyrir sér. Þetta er viðkvæmt mál og þetta er óþægileg staða sem ráðherrann er í. Ég studdi ráðherrann í því í upphafi að stíga ekki til hliðar vegna þess að það er mjög viðamikil ákvörðun og maður veltir fyrir sér fordæminu sem í því gæti falist, það er að segja, til framtíðar þyrfti ráðherra dómsmála þá að stíga til hliðar í hvert sinn sem lögð yrði fram kæra vegna þess hvernig tekið væri á einstökum málum. Mér fannst það afar slæmt fordæmi."
Bjarni segir að hann hafi ekki rætt sérstaklega við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra um stöðu innanríkisráðherra.
„Nei, þetta hefur ekki verið rætt sérstaklega á ríkisstjórnarfundi ekki nema að innanríkisráðherra hefur gert grein fyrir stöðu málsins á ákveðnum tímapunkti. En nei nei, við forsætisráðherra höfum ekki verið að ræða þetta mál sérstaklega okkar í milli,“ segir Bjarni Benediktsson.
Innlent