Körfubolti

Kona í þjálfaraliðið hjá Spurs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Becky Hammon með Rússum á ÓL.
Becky Hammon með Rússum á ÓL.
NBA-meistarar San Antonio Spurs réðu í dag BeckyHammon sem einn af aðstoðarþjálfurum Gregs Popovich, en hún er annar kvenkyns aðstoðarþjálfarinn í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.

Bandarískir miðlar héldu því fram í dag, að Hammon væri fyrsta konan sem yrði í þjálfaraliði í NBA-deildinni, en svo er ekki. Það var fljótlega leiðrétt því kona að nafni Lisa Boyer var einn af aðstoðarþjálfurum Cleveland Cavaliers tímabilið 2000/2001.

Hammon leggur keppnisskóna á hilluna í lok tímabilsins eftir sextán ára feril í WNBA-deildinni. Hún spilaði átta tímabil með New York og er á sínu áttunda með San Antonio Stars.

Hún var árið 2011 kjörin ein af fimmtán bestu leikmönnum deildarinnar frá upphafi, en Hammon er sjöunda á stigalistanum í sögu deildarinnar (5.809), fjórða á stoðsendingalistanum (1.687) og í sjötta sæti yfir flesta leiki spilaða (445.).

Hammon, sem er 37 ára gömul, fékk aldrei tækifæri til að spila með bandaríska landsliðinu og eftir að hún var enn eina ferðina ekki kölluð inn í æfingabúðir þess fyrir Ólympíuleikana í Peking árið 2008 tók hún til sinna ráða.

Hún gerðist rússneskur ríkisborgari og vann til bronsverðlauna með Rússlandi á ÓL 2008. Hún spilaði einnig með Rússum á ÓL í London þar sem liðið komst ekki á pall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×