Enski boltinn

Flugvél með leikmönnum United þurfti að hætta við lendingu vegna hryðjuverkaógnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leikmenn Manchester United fagna sigrinum í nótt.
Leikmenn Manchester United fagna sigrinum í nótt. vísir/getty
Flugvél sem flutti alla leikmenn og allt starfslið Manchester United heim til Manchester eftir sigurinn á ICC-æfingamótinu í Bandaríkjunum í nótt þurfti að hætta við lendingu á flugvellinum í Manchester vegna hryðjuverkaógnar.

Farþegi í annarri þotu á vegum Qatar Airways er grunaður um að hafa laumað miða með sprengjuhótun að flugþernu í því flugi.

Hún lét flugstjórann vita sem kom skilaboðunum áfram til flugstjórnar á Manchester-flugvellinum. Varúðarráðstafanir voru settar í gang og fylgdi herþota flugi QR23 síðasta spölinn til Manchester.

Á meðan hún var í aðflugi og að lenda þurftu aðrar vélar, meðal annars sú sem United-menn voru í, að víkja og tók hún því auka hring áður en hún lenti örugglega.

Craig Norwood, ljósmyndari Manchester United, lét vita á Twitter að flugvélinni hefði verið beint frá vellinum og svo að hún væri lent.

Josh Hartley, ungur Breti um borð í flugi QR23, uppfærði á Twitter-síðu sinni hvað var að gerast um borð í vélinni og birti mynd af sökudólgnum.

Um gabb var að ræða og var maðurinn handtekinn við lendingu. Um klukkustund leið frá að sprengjuhótunin var tilkynnt og þar til maðurinn var settur í handjárn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×