Innlent

Starfsmenn DV áhyggjufullir um stöðu sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá skrifstofu DV. Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri, Heiða B. Heiðarsdóttir, markaðs og auglýsingastjóri, og Reynir Traustason, ritstjóri DV, komu þó ekki að yfirlýsingu starfsmannafélagsins.
Frá skrifstofu DV. Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri, Heiða B. Heiðarsdóttir, markaðs og auglýsingastjóri, og Reynir Traustason, ritstjóri DV, komu þó ekki að yfirlýsingu starfsmannafélagsins. Vísir/GVA
Starfsmenn DV ehf. lýsa yfir áhyggjum vegna væringa um eignarhald félagsins sem virðast vera tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku, þar sem ekki liggur ljóst fyrir hvaða aðilar það eru sem fjármagna kaupin. Þetta kemur fram í yfirlýsingu starfsmannafélags DV sem send var fjölmiðlum í dag.

Starfsmenn hafa áhyggjur af ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðilsins og undirstrika stuðning sinn við þá ritstjórnarstefnu sem haldið er úti undir merkjum DV. Telja þeir mega ráða af samtölum við stjórnarmenn DV ehf. að fráfarandi stjórnarformaður, Þorsteinn Guðnason, hafi meðal annars fundið að því að félagið greiði málskostnað og bætur vegna málaferla á hendur einstaka blaðamanni.

„Ef breyting yrði þar á yrði vegið að grunngildum ritstjórnarlegs frelsis og jafnframt farið gegn nýsettum fjölmiðlalögum,“ segir í yfirlýsingunni.

Starfsmenn DV vilja undirstrika að þeir muni standa vörð um óháða og frjálsa fjölmiðlun.

Vísir hefur fjallað um væringar á eignarhaldi félagsins þar sem aðferðarfræðin við mat á virði DV og vefsíðunnar Eirikurjonsson.is hefur vakið athygli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×