Innlent

Hanna Birna þarf að svara í dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Von er á svörum Hönnu Birnu til umboðsmanns í dag.
Von er á svörum Hönnu Birnu til umboðsmanns í dag. Vísir/Stefán
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra þarf í dag að svara fyrirspurnum Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, í tenglsum við lekamálið svokallaða.

Umboðsmaður óskaði þann 30. júlí formlega eftir upplýsingum um fundi ráðherra og Stefáns Eiríkssonar, fráfarandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, eftir að DV fullyrti að Stefán hefði sagt upp störfum vegna afskipta ráðherra af rannsókn málsins. Ráðherra var gefinn frestur til dagsins í dag til að skila svörum.

Svör Hönnu Birnu bárust þann 1. ágúst og kom þar meðal annars fram að ráðherra hafði fundað fjórum sinnum með lögreglustjóra á meðan rannsókn stóð en að enginn þessara funda hefði verið boðaður sérstaklega til að ræða lekamálið. Jafnframt sagði að upplýsingar um símtöl þeirra á milli, sem umboðsmaður óskaði eftir, væru ekki teknar saman í ráðuneytinu.

Umboðsmaður sendi svo aftur beiðni um upplýsingar þann 6. ágúst og fór fram á skýrari svör. Í þeim á meðal annars að koma fram hvenær fundir ráðherra og lögreglustjóra áttu sér stað, hvaða málefni voru til umræðu á fundunum og umboðsmanni á að vera afhent skrá um öll símtöl og fundi ráðherra á tímabilinu 1. janúar til 1. júlí 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×