Innlent

Segir umfjöllun fjölmiðla byggja á ósannindum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ríkissaksóknari hefur birt lögreglumanninum í LÖKE-málinu svokallaða, Gunnari Scheving Thorsteinssyni, ákæru fyrir tvö meint brot í opinberu starfi. Hann er sakaður um að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í upplýsingakerfi lögregunnar, ásamt því að hafa sent félaga sínum upplýsingar um þrettán ára gamlan dreng sem hann hafði afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður.

Í ákærunni kemur fram að Gunnar sé sakaður um að hafa á árunum 2007 til 2013 flett upp nöfnum 45 kvenna í málaskrárkerfi lögreglu, sem kallast LÖKE, og skoðað þar upplýsingar um konurnar án þess að uppflettingarnar tengist starfi hans sem lögreglumanns, og þannig misnotað stöðu sína í því skyni að afla sér upplýsinga um konurnar.

Hins vegar er hann sakaður um að hafa í ágúst 2012 sent tölvuskeyti á Facebook með upplýsingum sem leynt áttu að fara, nafn og lýsingu á þrettán ára gömul dreng, auk upplýsinga um ástæðu afskiptanna.

Lögmaður Gunnars, Garðar Steinn Ólafsson, segir að umfjöllun fjölmiðla um málið hafi hingað til verið byggð á ósannindum. Hann telur ljóst af ákæruliðunum að dæma að málið fjalli um samræður á milli vina þar sem ekkert sé að finna um deilingu upplýsinga um þolendur kynferðisafbrota, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Hann segir að þó að mennirnir hafi verið handteknir vegna umræðuhóps á Facebook hafi ekki fundist þar neinar upplýsingar um konurnar sem hægt sé að rekja til upplýsingakerfis lögreglunnar.

Garðar Steinn segir að þrettán ára gamli drengurinn, sem um ræðir í seinni ákæruliðnum, hafi skallað lögreglumanninn þegar hann hafði afskipti af honum í starfi sínu, og að hann hafi rætt það við félaga sinn á Facebook.  

„Viðkomandi er nafgreindur í þessum samræðum og þá má vissulega deila um hvort það eigi við eða ekki. Umbjóðandi minn lætur þó ekki í ljós neinar upplýsingar úr LÖKE, það kemur ekki fram hvort viðkomandi hafi haft réttarstöðu grunaðs manns, vitnis eða annars í lögreglumáli og það er ekkert lögreglumál nefnt í þessu samhengi,“ segir hann. 

Upp­haf­lega voru þrír menn með réttarstöðu sakbornings í málinu, lög­reglumaður­inn, starfsmaður sím­fyr­ir­tæk­is­ins NOVA og lögmaður. Mál á hinna síðar­nefndu voru felld niður og hyggjast þeir leita réttar síns. Mál lögreglumannsins verður þing­fest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur 19. ág­úst næstkomandi, en farið hefur verið fram á að þinghald verði lokað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×