Erlent

Rúmlega fimmtíu handteknir vegna mótmæla í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregla í óeirðabúnaði handtekur einn mótmælenda í Ferguson.
Lögregla í óeirðabúnaði handtekur einn mótmælenda í Ferguson. Vísir/AP
Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda í Ferguson í Missouri í Bandaríkjunum í gærkvöldi, annað kvöldið í röð. Mótmælendur eru flestir hverjir íbúar í bænum og eru að mótmæla að hinn 18. ára gamli Michael Brown hafi verið skotinn af lögreglu.

Hann var óvopnaður þegar lögreglan skaut hann allt að átta sinnum. Miklu munar á frásögnum lögreglu og vitna að atburðinum. Vitni segja hann hafa verið með hendur á lofti þegar lögreglumaður skaut hann. Lögreglan segir hann hafa reynt að taka byssuna af lögreglumanninum.

Fleiri en 50 hafa verið handteknir af lögreglu vegna mótmælanna í úthverfinu St. Louis, en flestir íbúar þess eru þeldökkir. Um tveir þriðju íbúa bæjarins eru þeldökkir, en 50 af 53 lögreglumönnum eru hvítir, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Mótmælendur hrópuðu „Uppi með hendur, ekki skjóta“ fyrir utan lögreglustöðina.

Fjölskylda Michael Brown hefur ráðið lögfræðinginn Benjamin Crump, samkvæmt Reuters, en hann var lögfræðingur fjölskyldu Trayvon Martin. Hann var skotinn af manni í nágrannavakt árið 2012.

Þá hefur FBI hafið rannsókn á málinu. Íbúar Ferguson ætla að mótmæla aftur í kvöld samkvæmt Reuters.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×